Formúla 1

Hamilton segir Mercedes eiga langt í land

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lewis Hamilton er ekki sigurviss fyrir komandi tímabil.
Lewis Hamilton er ekki sigurviss fyrir komandi tímabil. Michael Potts/Getty Images

Lewis Hamilton kom áttundi í mark á æfungunni í aðdraganda Formúlu 1 kappaksturs helgarinnar sem fram fer í Barein. Hann segir sína menn í Mercedes eiga langt í land ætli liðið sér að keppa um titilinn.

Tímabilið í Formúlu 1 fer af stað á morgun, sunnudag, og það stefnir einfaldlega allt í að Max Verstappen hjá Red Bull standi uppi sem sigurvegari enn á ný. Hamilton sjálfur einokaði heimsmeistaratitilinn lengi vel en Hollendingurinn Verstappen er sá besti í dag.

„Við komumst að því að við eigum langt í land,“ sagði Hamilton við blaðamenn aðspurður hvað hann hefði lært á æfingunni sem fram fór á föstudag.

„Við vissum að við værum aðeins eftir á en bilið er stærra en okkur grunaði. Ég er að gera mitt besta úti á brautinni, verið verðum að vinna í þessu.“

„Ég held að ég hafi náð því besta úr bílnum en við höldum áfram að breyta litlum hlutum. Það verða samt bara smá breytingar, brot úr sekúndu en ekki heil sekúnda,“ sagði Hamilton einnig og virðist hann ekki reikna með Mercedes í titilbaráttu í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×