Handbolti

Rekinn eftir tapið stóra í Reykjavík

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Snær Óskarsson og félagar í Val léku lið PAUC grátt og nú hefur þjálfari liðsins verið rekinn.
Arnór Snær Óskarsson og félagar í Val léku lið PAUC grátt og nú hefur þjálfari liðsins verið rekinn. vísir/Diego

Forráðamenn franska félagsins PAUC, sem Kristján Örn Kristjánsson leikur með, hafa ákveðið að losa sig við þjálfarann Thierry Anti. Tapið stóra gegn Valsmönnum á Hlíðarenda hafði sitt að segja.

PAUC varð að sætta sig við að falla úr leik í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en þetta varð ljóst á þriðjudagskvöld, á sama tíma og Valsmenn tryggðu sér 3. sæti riðilsins eftir sigur gegn Ystad í Svíþjóð.

PAUC vann reyndar Benidorm á þriðjudaginn af öryggi á heimavelli en segja má að 40-31 tapið gegn Val í síðustu viku hafi reynst banabiti liðsins í Evrópudeildinni, og þar með einnig banabiti Antis.

Í yfirlýsingu frá PAUC segir að ákvörðunin um að Anti víki sé sameiginleg og að hann stýri liðinu í einum leik til viðbótar, gegn Nantes í frönsku deildinni á laugardag. Franskir miðlar segja þó að ákvörðunin um að Anti fari sé komin frá forráðamönnum PAUC.

PAUC náði sínum best árangri undir stjórn Anti í fyrra þegar liðið endaði óvænt í 3. sæti frönsku deildarinnar, með Kristján Örn í frábæru formi en hann var valinn í úrvalslið ársins.

Nú er liðið í 7. sæti frönsku deildarinnar með 17 stig eftir 18 leiki, eða 13 stigum frá 3. sætinu sem liðið náði í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×