Skoðun

Ryðjum menntabrautina

Hrönn Stefánsdóttir skrifar

Á Íslandi hefur hugmyndin um jafnrétti til náms verið til grundvallar í menntakerfinu. Enda er jafn réttur til náms ein besta leiðin til að jafna stöðu þegna í þjóðfélaginu. Margt hefur verið gert í íslensku þjóðfélagi til að tryggja þennan rétt til dæmis með því að hafa hófstillt skólagjöld í háskóla og með því að veita nemendum aðgang að námslánum. Þannig hafa allir hópar þjóðfélagsins aðgang að námi og má því segja að í raun sé Ísland land tækifæranna.

En er jafnrétti til náms á Íslandi fyrir alla? Fatlaðir nemendur, langveikir og aðrir sem þurfa sérúrræði í námi er hópur sem stundum á erfitt með að sækja rétt sinn til þess að geta stundað nám. Samkvæmt lögum á að veita nemendum sem af einhverjum ástæðum geta ekki stundað nám sitt sérúrræði til þess að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem eru á vegi nemandans, til dæmis með viðeigandi aðlögun. Viðeigandi aðlögun felur það í sér að gerðar eru lagfæringar eða breytingar sem tryggja að fatlað fólk geti notið eða nýtt sér það úrræði sem um ræðir. Í þessu getur falist breytingar á aðgengi að húsnæði sem tryggir í því að nemendur komist um byggingar en það sem er ekki síður mikilvægt er að aðlaga námið að þörfum allra nemenda. Oft eru það ekki miklar lagfæringar sem þarf að gera á námi eða námsaðstæðum til að gera það aðgengilegt og það er mismunandi eftir hverjum og einum nemanda og fötlun hans hvað þarf að gera til að auka möguleika hans til náms. Fyrir sum er sveigjanlegur námstími, meiri aðgangur að fjarkennslu, lengri próftími eða aðgangur að hljóðbókum nóg til þess að nemandi geti nýtt sér þau námstækifæri sem boðið er upp á og lokið námi sínu á farsælan hátt.

Það er hagur þjóðfélagsins að menntunarstig sé hátt og að allir einstaklingar fái notið hæfileika sinna til fulls. Því er það grundvallaratriði að lögð sé áhersla að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem valda því að sumir nemendur sem hafa fulla getu til að stunda nám, ef aðeins væri tekið tillit til þarfa þeirra, falli burtu úr námi vegna skorts á viðeigandi aðlögun. Háskólar vinna stöðugt betra starf að því að koma til móts við alla nemendur en því miður er það enn svo að það er torsóttara fyrir suma nemendur en aðra að fá þessa aðlögun. Sá hópur sem virðist helst eiga erfitt með að fá þau úrræði sem þeir þarfnast eru nemendur sem eru með ósýnilegar fatlanir eins og til dæmis fólk með gigt eða annan stoðkerfisvanda, geðraskanir eða aðra sjúkdóma sem sjást ekki utan á fólki og geta verið sveiflukenndir þannig að sumir dagar eru betri en aðrir. Þessir nemendur lenda jafnvel í því að þeir fá neitun um þá hjálp sem þeir eiga rétt á þrátt fyrir að vera með tilheyrandi læknisvottorð. Mikilvægt er að ryðja þessum hindrunum úr vegi til að ryðja menntabrautina fyrir alla nemendur. Með því tryggjum við að hæfileikar allra fái notið sín til fulls.

Höfundur er formaður atvinnu- og menntahóps ÖBÍ réttindasamtaka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×