Körfubolti

„Ég myndi alltaf þiggja þetta“

Sindri Sverrisson skrifar
Craig Pedersen hefur farið með Ísland í lokakeppni EM í tvígang og var grátlega nálægt því að skila liðinu inn á sjálft heimsmeistaramótið.
Craig Pedersen hefur farið með Ísland í lokakeppni EM í tvígang og var grátlega nálægt því að skila liðinu inn á sjálft heimsmeistaramótið. FIBA

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari Íslands í körfubolta, sagðist ekki geta annað en verið stoltur af liðinu eftir sigurinn gegn Georgíu í Tbilisi í dag sem þó dugði ekki til að komast á HM. Ísland vann þriggja stiga sigur en þurfti að lágmarki fjögurra stiga sigur til að komast á mótið.

Ísland fékk lokasókn leiksins og boltinn barst til Elvars Más Friðrikssonar en skot hans geigaði og Georgíumenn fögnuðu því að komast á HM í fyrsta sinn, á kostnað Íslendinga.

„Þetta fór í síðasta leikinn, síðasta skotið og frá okkar besta skotmanni. Við enduðum bara einu stigi frá þessu,“ sagði Craig í viðtali á RÚV eftir leik.

„Strákarnir gerðu ótrúlega vel í að vinna hérna gegn mjög góðu liði. Ég er ótrúlega stoltur. Ef það hefði boðist fyrir leik að Elvar fengi skot í lokin til að tryggja okkur áfram þá hefði ég þegið það. Ég myndi alltaf þiggja þetta,“ sagði Craig og kvaðst ekki geta farið fram á meira frá sínu liði.

Aðspurður um framtíðina sagði Craig að þrátt fyrir að HM væri úr sögunni stæði mikið til hjá íslenska liðinu.

„Vonandi höfum við Martin í framtíðinni. Hann gefur okkur breidd og reynslu, og við verðum að vinna áfram í breiddinni. En strákarnir börðust allir svo vel frá byrjun, fóru vel eftir planinu og við vorum bara millímetrum frá þessu

Við erum enn með okkar markmið um að komast á næsta EM og förum í ólympíuundankeppni í sumar. Við vorum að vinna Georgíu á útivelli svo að þetta lítur vel út,“ sagði Craig.


Tengdar fréttir

„Mesta svekkelsi sem ég hef upplifað“

„Ég er í smásjokki. Fá draumaskot til að komast á HM og það klikkaði. Ég get ekki mikið meira sagt en það,“ sagði Elvar Már Friðriksson algjörlega miður sín eftir að HM-draumurinn fjaraði út með grátlegasta hætti sem hugsast getur í Tbilisi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×