Körfubolti

Ó­trú­legar loka­sekúndur þegar Tatum tryggði Boston sigur á Phila­delphia

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jason Taytum skýtur sigurskotinu í nótt þegar 2,9 sekúndur eru eftir á klukkunni.
Jason Taytum skýtur sigurskotinu í nótt þegar 2,9 sekúndur eru eftir á klukkunni. Vísir/Getty

Jayson Tatum tryggði Boston Celtics sigur á Philadelphia 76´ers með þriggja stiga körfu um leið og lokaflautið gall í leik liðanna í nótt. Þá vann Memphis Grizzlies sigur á Denver Nuggets í uppgjöri tveggja efstu liða Vesturdeildarinnar.

Boston Celtics og Philadelphia 76´ers eru bæði í toppslag Austurdeildarinnar og lið sem margir telja að geta farið langt í vetur. Þau mættust í Wells Fargo Center í Philadelphia í nótt í leik sem réðist ekki fyrr en alveg undir lokin.

Jayson Tatum skoraði frábæra þriggja stiga körfu þegar 1,3 sekúndur voru eftir af leiknum og kom Boston í 110-107. Joel Embiid fékk boltann eftir körfuna og skot hans fyrir aftan miðju fór ofan í en flautan gall rétt áður en hann náði að sleppa boltanum.

Embiid endaði leikinn með 41 stig og 12 fráköst en Tatum skoraði 18 stig fyrir Boston auk þess að taka 13 fráköst og gefa 6 stoðsendingar.

Það var einnig toppslagur í Vesturdeildinni þar sem Memphiz Grizzlies tók á móti Denver Nuggets en Denver er efsta lið Vesturdeildinnar og Memphis í öðru sætinu. Það voru heimamenn sem fóru með sigur af hólmi í nótt og unnu 112-94 sigur.

Ja Morant skoraði 23 stig fyrir Memphis Grizzlies í leiknum en stjörnuleikmaður Denver Nikola Jokic skoraði 15 stig og tók 13 fráköst fyrir Denver.

New York Knicks vann sinn fimmta sigur í röð þegar liðið lagði New Orleans Pelicans að velli 128-106. Julius Randle hefur verið frábær hjá Knicks að undanförnu og var það einnig í nótt. Hann skoraði 28 stig og tók þar að auki 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Önnur úrslit í nótt:

Detroit Pistons - Toronto Raptors 91-95

Charlotte Hornets - Miami Heat 108-103

Orlando Magic - Indiana Pacers 108-121

Utah Jazz - San Antonio Spurs 118-102

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×