Handbolti

Kristján Örn ekki í hóp hjá PAUC sem tapaði fyrir liði Grétars Ara

Smári Jökull Jónsson skrifar
Donni var ekki í hóp hjá PAUC en hann greindi frá því nýverið að hann glímdi við kulnun.
Donni var ekki í hóp hjá PAUC en hann greindi frá því nýverið að hann glímdi við kulnun. Vísir/Vilhelm

Kristján Örn Kristjánsson og félagar hans í PAUC biðu lægri hlut á heimavelli gegn Sélestat í frönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld.

Kristján Örn var ekki í leikmannahópi PAUC í dag en hann greindi frá því á dögunum að hann glímdi við kulnun og myndi af þeim sökum taka sér pásu frá handknattleiksiðkun. Hann lék þó með PAUC gegn Val í Origo-höllinni á þriðjudag en sagði í viðtali eftir leik að hann hefði spilað þann leik fyrir vini sína og fjölskyldu.

Lið PAUC lék í kvöld á heimavelli gegn botnliði Sélestat en markvörðuinn Grétar Ari Guðjónsson er leikmaður síðarnefnda liðsins.

Leikurinn í kvöld var jafn til að byrja með en gestirnir náðu frumkvæðinu undir lok fyrri hálfleiks og fóru með 17-15 forystu inn í hálfleikinn.

Í seinni hálfleik byrjuðu gestirnir síðan af miklum krafti og komust í sex marka forystu í stöðunni 24-18. Þeir héldu þeirri forystu út leikinn og unnu að lokum góðan 31-25 sigur gegn PAUC sem virðist vera í töluverðri brekku þessa dagana.

Grétar Ari lék síðari hálfleikinn fyrir Sélestat í kvöld og varði fimm skot sem þýðir tæplega 30% markvörslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×