Körfubolti

„Evrópu- og heimsmeistararnir eru að mæta í Laugardalshöllina“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll þar sem liðið spilar við Spán í kvöld.
Ægir Þór Steinarsson á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll þar sem liðið spilar við Spán í kvöld. vísir/Sigurjón

Spánverjar eru ríkjandi heims og Evrópumeistarar og þeir spila við Ísland í Laugardalshöllinni í kvöld.

Íslenska liðið á enn möguleika á að skrifa nýjan kafla í sögu íslenska körfuboltans. Leikurinn hefst klukkan 19.45 í Laugardalshöllinni í kvöld.

Ægir Þór Steinsson spilar á Spáni og þekkir vel til í spænskum körfubolta.

„Ég er mjög spenntur. Maður verður að átta sig á því að Evrópu- og heimsmeistararnir eru að mæta í Laugardalshöllina,“ sagði Ægir Þór Steinarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins.

„Ég er svo spenntur að fá þá í heimsókn, fylla kofann og spila alvöru leik,“ sagði Ægir.

Íslenska liðið fær heimaleik á móti Spáni til að slípa liðið fyrir stóra leikinn úti í Georgíu, leik þar sem íslenska liðið getur tryggt sig inn á HM.

„Þetta snýst allt um hugarfarið og að taka mínútu fyrir mínútu. Við stefnum á sigur á móti Spánverjum og svo tekur bara hinn leikurinn við,“ sagði Ægir. Íslenska liðið fær ekki mikinn tíma að undirbúa sig en þekkir þá stöðu vel.

„Það er þannig með þessa glugga að menn mæta í þvílíku leikformi og það verður engin breyting á því. Svo erum við bara svo snöggir inn í hlutina að fara í það sem við ætlum að gera í sóknarleiknum og varnarleiknum ,“ sagði Ægir.

„Við þekkjum inn á hvern annan og allt þetta en maður finnur að það er áþreifanleg spenna fyrir þessum báðum leikjum,“ sagði Ægir. Trúin er til staðar í íslenska hópnum.

„Við erum búnir að komast yfir þessa hraðahindrun að vinna þessa stóru leiki og spila á móti stórum þjóðum. Það verður engin breyting á því á móti Spánverjum,“ sagði Ægir.

Það má sjá viðtalið við hann hér fyrir neðan.

Klippa: Ægir: Ég er mjög spenntur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×