Viðskipti innlent

Kol­efnis­spor Lands­virkjunar minnkað um sex­tíu prósent

Kjartan Kjartansson skrifar
Landsvirkjun áætlar að hún hafi forðað losun á um 2,6 milljónum tonna af koltvísýringsígildum með framleiðslu sinni á grænni orku í fyrra.
Landsvirkjun áætlar að hún hafi forðað losun á um 2,6 milljónum tonna af koltvísýringsígildum með framleiðslu sinni á grænni orku í fyrra. Vísir/Vilhelm

Losun Landsvirkjunar á gróðurhúsalofttegundum hefur dregist saman um sextíu prósent frá 2008. Heildarlosun á orkueiningu minnkaði um tvö prósent á milli ára í fyrra en kolefnisspor fyrirtækisins stækkaði lítillega á milli ára.

Landsvirkjun sett met í orkuvinnslu í fyrra en hún nam 14,8 teravattstundum. Losun gróðurhúsalofttegunda á hverja einingu orku sem fyrirtækið framleiddi nam 3,5 grömmum af koltvísýringsígildum á kílóvattstund. Það var samdráttur um tvö prósent á milli ára, að því er kemur fram í ársskýrslu Landsvirkjunar sem var birt í dag.

Alls telur Landsvirkjun sig hafa komið í veg fyrir losun á rúmlega 2,6 milljónum tonna koltvísýrings í fyrra borið saman við ef orka sem viðskiptavinir fyrirtækisins nýta væri framleidd með stærra kolefnisspori.

Kolefnisspor fyrirtækisins var tæp 17.000 tonn af koltvísýringsígildum og hækkaði aðeins á milli ára. Orsökin var aukin vinnsla á jarðvarma vegna aukinar eftirspurna raforku og lágrar vatnsstöðu í lónum fyrri hluta ársins.

Fyrirtækið stefnir á kolefnishlutleysi árið 2025 og að hætta alfarið að kaupa jarðefnaeldsneyti árið 2030. Losun þess vegna bruna eldsneytis dróst saman um fjórtán prósent á milli ára en það segist vinna markvisst að orkuskiptum í bíla- og tækjaflota sínum.

Sagt var frá því fyrr í vikunni að afkoma Landsvirkjunar hafi verið betri í fyrra en nokkru sinni áður. Hagnaður fyrirtækisins hafi numið tæpum 45 milljörðum króna. Stjórn þess ætlar að leggja til að hluthöfum verði greiddir um tuttugu milljarða króna í arð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×