Handbolti

Jónatan leitar til Skandinavíu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jónatan horfir út fyrir landssteinana.
Jónatan horfir út fyrir landssteinana. Vísir/Hulda Margrét

Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA, er í viðræðum um að taka við úrvalsdeildarliði í Skandinavíu að yfirstandandi leiktíð lokinni. Hann hefur þegar gefið út að hann haldi ekki áfram með KA-menn.

Greint er frá tíðindunum á Akureyri.net. Ekki kemur fram í hvaða Skandinavíuríki liðið er staðsett en að það sé í efstu deild. Jónatan vildi ekki tjá sig við miðilinn en sagði að sín mál kæmust á hreint á næstu dögum.

Jónatan hefur þegar upplýst KA-menn um að hann haldi ekki áfram með liðið þegar samningur hans rennur út í sumar. Halldór Stefán Haraldsson mun þá taka við liðinu.

Jónatan þekkir til í Noregi en hann spilaði og þjálfaði hjá liði Kristiansund á árunum 2010 til 2016.

KA situr í 10. sæti Olís-deildar karla með ellefu stig, aðeins þremur stigum frá ÍR sem er í efra fallsæti deildarinnar. Fimm stig eru upp í áttunda sæti sem gefur keppnisrétt í úrslitakeppninni í vor.

KA tapaði sínum síðasta leik, einmitt gegn ÍR í Breiðholti, og hefur leikið einum leik meira en Breiðhyltingar sem eiga leik inni á Norðanmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×