Handbolti

Ótrúlegt mark Óðins vekur athygli

Valur Páll Eiríksson skrifar
Óðinn Þór á góðri stund með Ómari Inga Magnússyni.
Óðinn Þór á góðri stund með Ómari Inga Magnússyni. VÍSIR/VILHELM

Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæsti leikmaður Kadetten Schaffhausen frá Sviss sem tryggði farseðil sinn í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar með eins marks útisigri á Benfica í Lissabon í gærkvöld. Eitt marka hans vakti sérstaka athygli og ekki að ástæðulausu.

Óðinn Þór skoraði átta mörk fyrir Kadetten í gær er liðið lagði Benfica 28-27 í Portúgal. Liðið tryggði þar formlega sæti sitt í 16-liða úrslitunum en önnur úrslit þýddu að Benfica komst einnig áfram, þrátt fyrir tapið.

Schaffhausen fylgir einnig Montpellier frá Frakklandi og Göppingen áfram úr A-riðli keppninnar en lið úr A-riðli munu mæta þeim úr B-riðli í 16-liða úrslitunum. Valsmenn tryggðu sig áfram úr B-riðlinum með frábærum sigri á PAUC frá Frakklandi í gær og eru Valur því mögulegur mótherji Óðins og félaga, en ein umferð er enn óleikin í báðum riðlum og fer fram í næstu viku.

Leikur gærkvöldsins var sá fimmti þar sem Óðinn er markahæstur hjá Kadetten í keppninni en Dagur Arnarsson, leikmaður ÍBV, vakti athygli á einu þeirra á samfélagsmiðlinum Twitter. Líkt og sjá má skoraði Óðinn beint úr hornkasti.

Markið skoraði Óðinn á lykilaugnabliki í leiknum. Rúmar fimm mínútur lifðu leiks og staðan 25-24 fyrir Benfica, auk þess sem hönd dómaranna var uppi. Kadetten sneri leiknum sér í hag og unnu með eins marks mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×