Skoðun

Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Miðað við niðurstöður skoðanakannana hefur stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið farið dvínandi hér á landi eftir að hafa aukizt talsvert í kjölfar innrásar rússneska hersins í Úkraínu í lok febrúar á síðasta ári. Hafa fjölmiðlar eins og Ríkisútvarpið og Heimildin vakið máls á þessu í umfjöllunum sínum um málið. Áður höfðu allar kannanir í þrettán ár samfellt sýnt fleiri andvíga því að Ísland gengi í sambandið.

Vart þarf að koma á óvart að stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið hafi aukizt fyrstu mánuðina eftir innrásina í Úkraínu ofan í stöðu efnahagsmála. Hins vegar hefur hið hörmulega stríð í Úkraínu meðal annars varpað enn betra ljósi en áður á það hve illa sambandið stendur að vígi í öryggis- og varnarmálum, ekki sízt þegar kemur að efnahagsöryggi, fyrir utan annað sem innganga í það hefði í för með sér.

Miðað við niðurstöður nýjustu skoðanakönnunarinnar, sem gerð var nýverið af Maskínu fyrir Evrópuhreyfinguna sem hlynnt er inngöngu Íslands í Evrópusambandið, skilja nú einungis tæp fimm prósentustig þá að sem vilja ganga í sambandið og þá sem eru því andvígir en fyrir að verða ári síðan var munurinn um 14% inngöngusinnum í vil. Þannig voru 40,8% hlynnt inngöngu samkvæmt könnuninni en 35,9% andvíg.

Fyrir tæpu ári síðan voru 47% hlynnt inngöngu í Evrópusambandið og 33% andvíg samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Gallups sem gerð var einungis nokkrum dögum eftir innrás rússneska hersins í Úkraínu. Síðasta sumar mældist stuðningurinn við inngöngu 48,5% í könnun Prósents, í nóvember 42,8% samkvæmt sama fyrirtæki og nú síðast sem fyrr segir 40,8% samkvæmt könnun Maskínu.

Fylgi Viðreisnar, eina flokksins sem leggur áherzlu á inngöngu í Evrópusambandið, mælist einungis um 7% samkvæmt niðurstöðum nýjustu könnunar á fylgi flokkanna. Fylgi Samfylkingarinnar, hins flokksins sem talað hefur fyrir málinu í gegnum tíðina en setti það á ís síðasta haust, hefur í kjölfar þeirrar ákvörðunar tvöfaldast. Kannanir benda til þess að sú ákvörðun hafi vegið þungt í þeim efnum.

Margt bendir þannig til þess að áherzla á inngöngu Íslands í Evrópusambandið sé ekki ávísun á fylgisaukningu flokka. Ekki einu sinni þegar reynt er að telja fólki trú um það að sambandið sé einungis gjaldmiðill. Þvert á móti. Ólíkt Samfylkingunni býr Viðreisn við þann vanda að hafa beinlínis verið stofnuð í kringum þetta eina tiltekna stefnumál. Án þess væri forsendan fyrir tilvist flokksins úr sögunni.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×