Handbolti

Þýsku meistararnir höfðu betur í Ís­lendinga­slag Meistara­deildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gísli Þorgeir skoraði tvö fyrir Magdeburg í kvöld.
Gísli Þorgeir skoraði tvö fyrir Magdeburg í kvöld. Vísir/Getty

Þýskalandsmeistarar Magdeburg unnu öruggan sjö marka sigur er liðið tók á móti ungversku meisturunum í Veszprém í Íslendingaslag Meistaradeildarinnar í handbolta í kvöld, 32-25.

Heimamenn í Magdeburg byrjuðu leikinn betur og náðu fljótt upp þriggja marka forskoti. Erfiðlega gekk að hrista gestina af sér og munurinn varð aldrei meiri en þrjú mörk í fyrri hálfleik, en Veszprém minnkaði muninn fyrir hálfleikshlé og staðan var 16-15 þegar gengið var til búningsherbergja.

Eftir jafnar upphafsmínútur í síðari hálfleik tóku heimamenn í Magdeburg þó völdin og breyttu stöðunni úr 19-19 í 25-20. Eftir það voru gestirnir aldrei nálægt því að ógna forskoti þýsku meistaranna og niðurstaðan varð því sjö marka sigur Magdeburg, 32-25.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg í kvöld, en Ómar Ingi Magnússon var ekki með liðinu vegna meiðsla. Bjarki Már Elísson komst ekki á blað fyrir Veszprém.

Magdeburg og Veszprém eru nú jöfn að stigum í öðru og þriðja sæti A-riðils með 16 stig eftir 12 leiki, en Magdeburg er með yfirhöndina í innbyrðis viðureignum og situr því sæti ofar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×