Umfjöllun og myndir: Haukar - Hörður 37-30 | Haukar í undanúrslit

Andri Már Eggertsson skrifar
Það var hart barist í leik Hauka og Harðar
Það var hart barist í leik Hauka og Harðar Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Haukar unnu sjö marka sigur á Herði og eru komnir í undanúrslit Powerade-bikarsins í handbolta. Þrátt fyrir að hafa verið undir allan leikinn þá sýndi Hörður gæði inn á milli og voru aðeins einu marki undir í hálfleik. Haukar voru sterkari á svellinu í seinni hálfleik og unnu að lokum 37-30.

Liðin byrjuðu á að skiptast á mörkum en þegar tíu mínútur voru liðnar komust Haukar þremur mörkum yfir 7-4. Hörður var hins vegar ekki á því að láta valta yfir sig strax á fyrstu tíu mínútunum. Gestirnir jöfnuðu í 9-9 og úr varð algjört borðtennis þar sem liðin skiptust á að skora og það var lítið um varnarleik.

Aron Rafn byrjaði í marki Hauka Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Aron Rafn Eðvarðsson, markmaður, Hauka, spilaði sinn fyrsta leik gegn Stjörnunni á dögunum eftir tæplega árs fjarveru vegna höfuðmeiðsla. Aron Rafn varði fimm skot í síðasta leik. Í kvöld var Aron Rafn ekki að finna sig og varði aðeins tvö skot og annað fór af hávörninni og til hans.

Haukar náðu með engu ráði að slíta baráttuglaða Harðverja frá sér. Hörður komst einu sinni yfir í fyrri hálfleik þegar þeir skoruðu fyrsta mark leiksins annars leiddu Haukar. Staðan í hálfleik var 17-16.

Guntis Pilpuks í leik kvöldsins Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Bæði lið byrjuðu síðari hálfleik klaufalega þá sérstaklega Hörður. Gestirnir töpuðu klaufalegum boltum ásamt því fór Matas Pranckevicius, markmaður Hauka, að verja vel. Haukar gengu á lagið og komust fjórum mörkum yfir 22-18 og þá tók Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar, leikhlé.

Hörður kastaði leiknum endanlega frá sér þegar sjö mínútur voru eftir. Hörður tók þá leikhlé og eftir leikhlé tapaði Hörður tveimur boltum og fékk mark í bakið í bæði skiptin á tæplega 30 sekúndum.

Haukar unnu að lokum sjö marka sigur 37-30 og eru komnir í undanúrslit Powerade-bikarsins.

Ásgeir Örn Hallgrímsson ræddi við liðið sitt í leik kvöldsins Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Af hverju unnu Haukar?

Haukar lentu einu sinni undir í leiknum og það var í stöðunni 0-1. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Haukar sýndu styrk í seinni hálfleik sem skilaði öruggum sjö marka sigri. 

Hverjir stóðu upp úr?

Matas Pranckevicius, markmaður Hauka, átti sennilega sinn besta leik á tímabilinu í kvöld. Matas kom í markið eftir að Aron Rafn var ekki að finna sig. Matas varði þrjá bolta í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik lokaði hann markinu og endaði með 13 varða bolta eða 39 prósent markvörslu.

Stefán Rafn Sigmarsson fór fyrir Haukum í markaskorun og skoraði tíu mörk úr ellefu skotum.

Stefán Rafn skoraði 10 mörk í kvöld Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Hvað gekk illa?

Hörður gerði vel í fyrri hálfleik að missa Hauka ekki of langt frá sér en í seinni hálfleik fóru Harðverjar að tapa fleiri boltum, klikka á fleiri dauðafærum og fengu á sig ódýr mörk. 

Hvað gerist næst?

Selfoss og Hörður mætast í Set-höllinni næsta sunnudag klukkan 16:00.

Afturelding og Haukar mætast mánudaginn 20. febrúar klukkan 19:30.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira