Innherji

VÍS og Fossar hefja sam­runa­við­ræður

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gert er ráð fyrir að hluthafar Fossa fái 260 milljón nýja hluti í VÍS fyrir hlutabréf sín, sem nemur 13,3 prósentum af hlutafé tryggingafélagsins
Gert er ráð fyrir að hluthafar Fossa fái 260 milljón nýja hluti í VÍS fyrir hlutabréf sín, sem nemur 13,3 prósentum af hlutafé tryggingafélagsins VÍSIR/VILHELM

Vátryggingafélag Íslands og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka hafa ákveðið að hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum fjárfestingarbanka á grundvelli viljayfirlýsingar um sameiningu félaganna.

Samkvæmt tilkynningu sem VÍS sendi til Kauphallarinnar í morgun er gert ráð fyrir að hluthafar Fossa fái 260 milljón nýja hluti í VÍS fyrir hlutabréf sín, sem nemur 13,3 prósentum af hlutafé tryggingafélagsins. Fossar yrðu því verðmetnir á um fimm milljarða króna í viðskiptunum ef af þeim verður.

Kaupin yrðu háð ýmsum skilyrðum, svo sem niðurstöðu áreiðanleikakannana, samþykki eftirlitsstofnana og samþykki hluthafafundar VÍS.

„Sameinað félag yrði öflugt fjármálafyrirtæki í sterkri stöðu til þess að nýta sér vaxtarmöguleika á markaði. Það myndi búa yfir fjárhagslegum styrk, afburða starfsfólki og sterkum innviðum fyrir framúrskarandi þjónustu á sviði trygginga, lánveitinga, miðlunar, fyrirtækjaráðgjafar, eignastýringar, sjóðastýringar og sérhæfðrar fjármálaþjónustu,“ segir í tilkynningunni.

Í upphafi er lagt upp með að Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, og Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka, muni sameiginlega leiða félagið. Framtíðarskipulag samstæðu verður skoðað á næstu vikum með tilliti til vaxtar, stjórnarhátta og hagræðingar.

Í byrjun þessa árs var greint frá því að Helga Bjarnasyni, forstjóra VÍS frá 2017, hefði verið sagt upp störfum og stjórnin væri búin að marka nýja stefnu fyrir félagið þar sem horft er til þess að útvíkka starfsemi þessi á fjármálamarkaði. Innherji hefur nýlega greint frá því að fyrr í vetur hafi meðal annars verið ræddur sá möguleiki að kanna samruna við Fossa fjárfestingabanka innan stjórnar tryggingafélagsins.

Í umfjölluninni kom fram í máli viðmælenda á fjármálamarkaði að ekki ætti að koma á óvart að mörg fyrirtæki væru að leita leiða til hagræðingar og samlegðartækifæra í því skyni að hámarka virði hluthafa. Íslenska bankakerfið væri dýrt á flesta mælikvarða samanborið við banka í okkar nágrannalöndum, meðal annars vegna smæðarinnar, þótt bönkunum hefði tekist á síðustu árum að lækka nokkuð kostnaðarhlutfallið sitt með auknum tekjum af kjarnastarfsemi á sama tíma og kostnaði hefur verið haldið í skefjum.

Þá kom einnig fram að stjórnendur Íslandsbanka, sem eiga nú í viðræðum við Kviku banka um mögulegan samruna, hefðu um tíma haft samruna við VÍS til skðunar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×