Körfubolti

Pavel bað um stöðugleika og þá gerðist það hafði aldrei gerst á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij tók við Tindastólsliðinu í janúar.
Pavel Ermolinskij tók við Tindastólsliðinu í janúar. Vísir/Bára

Tindastóll komst aftur á sigurbraut i Subway deild karla í körfubolta í gærkvöldi þegar liðið vann sannfærandi 21 stigs sigur á Hetti, 109-88.

Þetta var það mesta sem Stólarnir höfðu skorað í einum leik síðan í nóvember og jafnframt þriðji stærsti sigur liðsins á leiktíðinni.

Eftir tapið á móti Stjörnunni í leiknum á undan þrátt fyrir að vera fimmtán stigum yfir í hálfleik þá var þjálfarinn Pavel Ermolinskij myrkur í máli.

„Það skiptir engu máli hver er að þjálfa, skiptir engu máli hver er að spila, hæðirnar og lægðirnar hjá þessu liði eru bara of miklar. Það er vandamál númer eitt. Það er verkefni mitt númer eitt. Ég er mjög lítið að pæla í þessum kerfum eða einhverju slíku, það er þetta sem er vandamálið. Hvernig við leysum það er svo bara eins og hvað annað. Það er bara vinna og það góða úr þessu er að núna er þetta bara svart á hvítu,“ sagði Pavel Ermolinskij eftir tapið í Garðabænum.

Í sigrinum á móti Hetti gerðist líka eitthvað sem hafði ekki gerst áður í vetur.

Tindastólsliðið vann alla fjóra leikhlutana sem ætti að vera gott dæmi um það að liðið sé að sýna stöðugleika.

Stólarnir höfðu ekki náð að vinna alla leikhlutana í sama leik í vetur. Margoft höfðu þeir komist vel yfir í leikjum en misst það forskot niður. Að þessu sinni stigu Stólarnir á bensíngjöfina allan leikinn.

Tindastóll vann fyrsta leikhlutann með þremur stigum (28-25), annan leikhlutann með átta stigum (28-20), þriðja leikhlutann með sex stigum (26-20) og loks fjórða leikhlutann með fjórum stigum (27-23).

Stólarnir höfðu mest náð því að vinna þrjá leikhluta í einum og sama leiknum en það hafði gerst nokkrum sinnum. Nú voru þeir betri í öllum fjórum leikhlutanum sem bendir til þess að Pavel sé kominn nær markmiðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×