Skoðun

Breið­fylking um­bóta­afla

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar

Það skýtur skökku við, að prófessor úr fílabeinsturni akademíunnar (Háskóla Íslands) skuli þurfa til að minna okkur á, að pólitík er ekki samkvæmisleikur og sýndarmennska, eins og sumir virðast halda. Pólítík snýst um völd. Það er kjarni málsins í nýjustu bók Dr. Stefáns Ólafssonar, sem hann nefnir: Baráttan um bjargirnar – stjórnmál og stéttabarátta í mótun íslensks samfélags. Þessi bók ætti að vera skyldulesning allra þeirra sem sitja á Alþingi, í sveitarstjórnum eða í stjórnum stéttarfélaga og hagsmunasamtaka. Allavega, allra þeirra sem vilja gæta almannahagsmuna.

Hingað – en ekki lengra

Núna er rétti tíminn til að byrja að undirbúa meiriháttar þjóðfélagsbreytingar. Við stöndum á tímamótum. Á undanförnum áratugum hafa fulltrúar fjármagnseigenda í Sjálfstæðisflokknum verið að þoka þjóðfélaginu smám saman, skref fyrir skref, í átt að óbeisluðum kapítalisma af því tagi, sem náð hefur að festa sig í sessi í Bandaríkjunum. Að sama skapi höfum við verið að fjarlægjast hið norræna samfélagsmódel. Í næstu kosningum eigum við tveggja kosta völ: Viljum við halda áfram á sömu braut? Eða, ætlum við að segja: Hingað – en ekki lengra?

Allir sem til þekkja viðurkenna núorðið að hin norræna samfélagsgerð er eftirsóknarverðasta samfélagsgerð samtímans. M.a.s. í Bandaríkjunum boðar Bernie Sanders - í tvígang næstum forsetaefni Demókrata - norræna módelið sem fyrirmynd. Skoðanakannanir sýna, að um það bil helmingur Bandaríkjamanna af yngri kynslóð er sammála honum.

Sú staðreynd blasir við augum, að fjármagnseigendur – kapitalistar – þeir sem stýra fjármagninu og fyrirtækjunum, hafa gríðarleg völd. Þeir ráða og reka fólk. Þeir taka stærstu ákvarðanirnar um fjárfestingar og framkvæmdir. Skammtímagróðasjónarmið ræður þeirra för. Það er eðli kapitalismans, að fjármagnið safnast stöðugt á æ færri hendur. Óbeislaður kapitalismi er ójafnaðarsamfélag. Nú, á tímum hins hnattvædda kapitalisma erum við að setja nýtt heimsmet í ójöfnuði. Hinir ofurríku verða æ ríkari. Hlutur vinnandi fólks í þjóðartekjum þróuðu landanna hefur snarminnkað, og þar með lífskjör og starfsöryggi almennings. Þetta gerist á tímum nýfrjálshyggju og hnattvæðingar.

Norræna módelið

Norræna módelið fór að mótast á millistríðsárum seinustu aldar – í miðri heimskreppu óbeislaðs kapitalisma. Það sem gerir það sérstakt er, að fulltrúar vinnandi fólks – hinn pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar, þ.e.a.s. flokkar sósíaldemókrata – náðu völdum og héldu þeim áratugum saman. Ekki fulltrúar fjármagnsins. Sósíaldemókratar höfnuðu hvoru tveggja, alræðis-sósíalisma Sovétsins og óbeiðsluðum kapitalisma auðvaldsins. Þeir fóru „þriðju leiðina“.

Það þýðir málamiðlun milli markaðskerfis og lýðræðis. Þar með eru kostir markaðskerfisins, þar sem þeir eiga við, viðurkenndir en – og það skiptir sköpum – undir ströngu eftirliti og lýðræðislegri stjórn. Hins vegar lúta aðrir mikilvægir þættir samfélagsgerðarinnar lýðræðislegri stjórn sem óhagnaðardrifin samfélagsþjónusta. Þetta á við um aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu, almannatryggingum (sjúkra-, slysa-, elli- og atvinnuleysistryggingum), allt fjármagnað með stighækkandi sköttum, eftir efnum og aðstæðum. Sama máli gegnir um nýtingu auðlinda sem sameign þjóðarinnar, framleiðslu og dreifingu orku, almannasamgöngur o.s.frv.. Þessu til viðbótar er virk vinnumarkaðspólitík til að hámarka atvinnuþátttöku, greiða fyrir atvinnuþátttöku kvenna, og fyrirbyggja atvinnuleysi. Óhagnaðardrifin samfélagsþjónusta af þessu tagi nemur nú um helmingi þjóðarframleiðslunnar. Allt stuðlar þetta að auknum jöfnuði, samheldni og stöðugleika í þjóðfélaginu.

Nýfrjálshyggjan – m.ö.o. markaðstrúboðið – er í uppreisn gegn velferðarríkinu, vegna þess að það kemur í veg fyrir, að samfélagsauðurinn safnist á fáar hendur, m.a. með tekjujöfnun skattkerfisins. Kjarninn í gagnrýni markaðstrúboðsins á velferðarríkið er, að með sínum háu sköttum og afskiptum af efnahagsstarfseminni drepi það í dróma allt framtak og tækninýjungar – og verði að lokum ósamkeppnishæft á heimsmörkuðum.

Málamiðlun: Ríki og markaður

Allt hefur þetta afsannast á tímabili hins hnattvædda kapítalisma. Norræna módelið hefur staðist þá prófraun með prýði. Það sýna öll samanburðarpróf þjóðríkjanna. Norðurlönd eru hvarvetna í fremstu röð: Það á við um hagvöxt, framleiðni, rannsóknir og þróun, innleiðingu tækninýjunga, atvinnuþátttöku, sér í lagi atvinnuþátttöku kvenna, félagslegan hreyfanleika, sköpun starfa, útrýmingu fátæktar, jöfnun tekjuskiptingar, þroskað og virkt lýðræði, varðveislu náttúruauðlinda, umhverfisvernd og aðgang að óspjallaðri náttúru. Hvar er auðveldast að stofna fyrirtæki í heiminum? Það er í Danmörku. Bandaríkin eru nr. 38.

Niðurstaða: Það er tóm bábilja, að afskipti lýðræðislegs ríkisvalds af mörkuðum séu af hinu illa. Það er þvert á móti. Ríkisafskipti eru nauðsynleg til að tryggja, að markaðirnir skili árangri og að allir þegnar þjóðfélagsins njóti arðsins af efnahagsstarfseminni. Og til að fyrirbyggja síendurteknar fjármálakreppur. Asíumódelið (Japan, S- Kórea, Taivan, Kína, Singapoore o.fl.) sannar, að ríkisafskpti af atvinnulífinu geta skilað miklum árangri. Staðreyndirnar tala sínu máli um þetta. Skoðanakannanir staðfesta, að almenningur kann vel að meta ótvíræða kosti hinnar norrænu samfélagsgerðar.

Annars staðar á Norðurlöndum hefur hinn pólitíski armur öflugrar verkalýðshreyfingar – flokkar lýðræðis-jafnaðarmanna – ráðið einir, eða í samstarfi við aðra, lögum og lofum áratugum saman. Flokkar fjármagnseigenda og atvinnurekenda hafa verið tvístraðir og í minnihluta. Þeir hafa því ekki náð því að sölsa undir sig ríkisvaldið til viðbótar við fjárhagslegt vald sitt í krafti eignar á fyrirtækjum.

Stóra þversögnin

Á Íslandi hefur móðurflokkur lýðræðis-jafnaðarmanna, Alþýðuflokkurinn – upphaflega hinn pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar fram til 1940 – klofnað oftar en ég hirði um að muna. Þar munar mestu um Sovét-trúboðið. Það tók forystumenn þess meira en hálfa öld að viðurkenna, að þeir höfðu rangt fyrir sér í öllum meginatriðum. Yfirleitt má segja um þessa klofningsiðju, að hún var jafn ástæðulaus og hún reyndist skaðleg til langs tíma. Afleiðingarnar blasa við enn í dag. Um það má lesa í þessu öndvegisriti Stefáns: Um vankanta og veilur hins íslenska velferðarríkis – það er fórnarkostnaðurinn.

Stóra þversögnin í þjóðfélagsgerð okkar Íslendinga nú á þriðja áratug 21. aldar, er þessi: Íslendingar teljast vera í hópi 10 ríkustu þjóða heims. Samt sem áður blasa hvarvetna við vankantar og veilur, sem við höfum vel efni á að leysa og lýsa líka furðulegu fyrirhyggjuleysi og sjúski í stjórnsýslu. Dæmi:

  • Skattkerfi: Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur ráðið ríkjum í fjármálaráðuneytinu lengur en elstu menn muna, hefur hannað skattkerfi sem lækkar skattheimtu á hátekjufólk, (eignatekjur, arf og fyrirtækjarekstur), og hefur fært skattbyrðina á sama tíma á lægstu- og millitekjuhópa. Hér á landi hefur verið gengið lengra í þessa átt á nýfrjálshyggjutímabilinu en víðast hvar á Vesturlöndum (bls. 194).
  • Hið félagslega húsnæðiskerfi, sem Alþýðuflokkurinn kom á 1929, var allt í einu lagt niður 1999 og 11.000 íbúðir seldar. Þetta flokkast undir hrein skemmdarverk. Í staðinn var stofnaður Íbúðalánasjóður ríkisins sem nú er gjaldþrota. Eftir stendur óleyst deila um það, hvorir eigi að bera skaðann, skattgreiðendur eða ellilífeyrisþegar. Markaðurinn átti að leysa málið. En við sitjum uppi með mannfjandsamlegt bóluhagkerfi á húsnæðismarkaðnum, sem lokar leigjendur inni í fátæktargildru og útilokar ungu kynslóðina frá því að koma sér upp þaki yfir höfuðið vegna óviðráðanlegra kjara. Húsnæðismarkaðnum er helst að líkja við fjárhættuspil, þar sem lánasamningar standast ekki og lántakendur eru hnepptir í skuldaþrældóm.
  • Í heilbrigðismálum ríkir vægast sagt neyðarástand: „Eftir 2003 tók við viðvarandi niðurskurður í íslenska heilbrigðiskerfinu alveg fram að Hruni, og í kreppunni eftir Hrun, þegar fjármál hins opinbera voru sérstaklega erfið, voru útgjöld til heilbrigðismála skorin niður...Þetta var þungt högg fyrir heilbrigðiskerfið, mikill niðurskurður í kreppu ofan á langvarandi niðurskurð. Sparað var í mannahaldi og tækjakaupum svo mjög, að þegar að uppsveiflu atvinnulífsins kom eftir 2010, mátti strax greina, hversu erfið staða heilbrigðiskerfisins var“ (bls. 317). Læknar flýja land, læknaskortur orðinn viðvarandi og biðlistarnir hrannast upp. Það er eins og þetta sé gert skv. handbók markaðstrúboðsins „Starve the beast“ – sveltum skrímslið – sem er iðulega beitt til að ýta undir kröfur um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Afleiðingin verður tvískipt heilbrigðisþjónusta: lúxus fyrir hina ríku, en sýnu lakari fyrir hina efnaminni.
  • Ofurskerðingar í íslenska almannatryggingakerfinu (bls. 282). Þótt íslenska lífeyrissjóðakerfið, sem verkalýðshreyfingin knúði fram í verkfallsátökum 1969/70 ,sé vel fjármagnað (sjóðakerfi), er enn langt í land að lífeyrir sjóðfélaga dugi til að tryggja afkomu. Engu að síður fer íslenska ríkið offari í að skerða grunnlífeyri almannatrygginga vegna annarra tekna lífeyrisþega. Það liggur við, að Ísland sé heimsmetshafi í þessari iðju (sjá töflu bls. 283).
  • Um þetta segir Stefán: „Þar sem skerðing greiðslna almannatrygginga er nálægt 50% af því sem fólk fær úr lífeyrissjóðum, þá er þetta fyrirkomulag ígildi þess, að ríkið njóti sem svarar allri ávöxtun fjárins í lífeyrissjóðum með lækkuðum útgjöldum almannatrygginga vegna lífeyrisgreiðslna. Skerðingarnar skila því. Síðan bætist við, að ríkið tekur rúmlega 20% af heildarlífeyristekjum fólks í tekjuskatt, þannig að samanlögð skerðing og skattur verður á bilinu 70-80% hjá þeim sem eru á lífeyri frá lífeyrissjóðum á bilinu 25-600.000 kr. á mánuði“. - - Þetta samsvarar 70-80% jaðarskattlagninu á tekjum lífeyrisþega. Þetta er í einu orði sagt svívirðilegt. Ekki sakar að geta þess, að ca. helmingur af útgreiddum lífeyri lífeyrissjóða er ávöxtun fjár og ætti þess vegna að skattleggjast sem fjármagnstekjur (20%).

Rentusókn og einka(vina)væðing

Allt eru þetta alvarlegar veilur í samfélagsgerð okkar, sem sjötta ríkasta þjóð í heimi hefur vel efni á að lagfæra. En málið snýst um völd. Allt er þetta, sem áður var rakið, afleiðing af eftirsókn fjármagnseigenda eftir einkavæðingu ríkiseigna og samfélagsþjónustu, sem er kjarninn í hugmyndafræði markaðstrúboðsins. Síst af öllu má vanmeta pólitísk völd og áhrif þessara afla. Alvarlegasta meinsemdin í þjóðfélagsgerð okkar á sl. áratugum er – og hefur verið - einkavæðing sjávarauðlindarinnar. Hún hefur þýtt millifærslu hundruða milljarða króna á undanförnum árum til útvalins hóps útgerðaraðals, allt í skjóli pólitísks valds. Þessu er helst að líkja við yfirtöku rússnesku ólígarkanna í kringum Pútín á auðlindum rússneska ríkisins.

Sama er að segja um einkavæðingu ríkisbankanna á sínum tíma til skjólstæðinga stjórnarflokkanna, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, fyrir gjafvirði og í trássi við allar reglur í siðuðu samfélagi. Það var stærsta einstaka misgjörðin, sem leiddi til hruns þjóðarbúsins árið 2008. Við höfum ekki enn séð fyrir endann á afleiðingum þess. Í bók sinni varar Stefán okkur við (bls.390):

„Árið 2004 upplýsti helsti hugmyndafræðingur nýfrjálshyggjunnar á Íslandi í erlendri blaðagrein, að Davíð Oddsson og fólkið í kringum hann væri með áform um að einkavæða meira og kröftuglegar á Íslandi, til dæmis orkulindir, hálendið, og fjármálastofnanir (sparisjóðina), skóla og heilbrigðisstofnanir. Allt þetta var á dagskrá og sumt náðist fram, t.d. sala orkuveitu Suðurnesja til erlends spákaupmanns. Sparisjóðakerfið var eyðilagt og yfirtekið af einkabönkum og áform voru uppi með einkasjúkrahús“. „Þá hafa Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins í seinni tíð reifað áform um að einkavæða allar byggingar hins opinbera (skrifstofur, skólahúsnæði, íþróttahús, kirkjur, menningarbyggingar o.s.frv.). Samskonar áform eru ítrekað kynnt varðandi samgönguinnviði.“

Sérstaklega er ástæða til að hafa vara á vegna áforma um nýjan einkageira í orkuvinnslu hér á landi, þ.e. vindorkugarða, sem verði að miklu leyti í eigu erlendra fjárfesta. (390)

Afl þeirra hluta, sem gera skal.

Hvað er til ráða? Stefán bindur greinilega vonir við, að verkalýðshreyfingin á Íslandi þekki sinn vitjunartíma og beiti afli sínu til verndar velferðarríkinu. Einn kaflinn í bókinni ber heitið „Öflugasta verkalýðshreyfing í heimi“ (bls.133). Rökin fyrir því eru, að á Íslandi er hærra hlutfall fólks á vinnumarkaði í stéttafélögum en annars staðar á byggðu bóli, yfir 90% (sjá töflu 134). Einnig bendir Stefán á, að harðvítug kjarabarátta verkalýðshreyfingarinnar á liðinni öld– oft stutt verkföllum – (á tímum Héðins og Hannibals, Ebba í Dagsbrún og Guðmundar Jaka) hafi bjargað því, sem bjargað varð, til að halda uppi kaupmætti og lífskjörum í þeirri óðaverðbólgu, sem þá ríkti. Þannig hafi Íslendingar smám saman lært að lifa með verðbólgunni, án þess að eignatilfærslur og kjaraskerðingar- venjulegir fylgifiskar verðbólgu – hafi bitnað á þeim af fulllum þunga.

Í þessu samhengi segir Stefán:„Ísland hefur ekki búið við öflugan jafnaðarmannaflokk eða verkalýðsflokk, sem hefur verið í ráðandi stöðu í áratugi, eins og var á öðrum Norðurlöndum. Í staðinn hefur Ísland búið að öflugri verkalýðshreyfingu, sem hefur iðulega þrýst á umbætur í velferðarmálum og lífskjaramálum, oft með skírskotun til þess, að hinar norrænu þjóðirnar standi okkur framar á umræddum sviðum. Þetta hefur verið mikilvægt og tryggt Íslandi betra velferðarríki en ella væri.

Almennur þrýstingur verkalýðshreyfingarinnar og vinstri flokka, þegar þeir hafa fengið tímabundna samningsstöðu um þátttöku í samsteypustjórnum með Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki, hafa þó ekki dugað til að berja í alla brestina í velferðarmálunum. Því hefur verkalýðshreyfingin oft griptið til þess ráðs að beita kjarasamningum til að ná fram nýmælum í skipan velferðarmála, sem og lagfæringum á vanbúnu velferðarkerfi. Eftirfarandi dæmi má nefna um afgerandi inngrip verkalýðshreyfingarinnar og viðsemjenda hennar á vinnumarkaði í þróun velferðarríkis á Íslandi (bls. 323):

  • Tilurð verkamannabústaðarkerfisins árið 1929 og síðar félagslega húsnæðiskerfisins til 1999.
  • Atvinnuleysistryggingasjóður árið 1955
  • Framkvæmdanefnd byggingaáætlunar – íbúðir fyrir láglaunafólk í Breiðholti árið 1965
  • Stofnun lífeyrissjóða á almennum markaði í kjarasamningum árið 1969
  • Sjúkrasjóðir verkalýðsfélaga stofnaðir upp úr 1980 og samið um laun í veikindum (1-3 mán.)
  • VIRK – starfsendurhæfingarsjóður, sem stofnaður var með kjarasamningum árið 2008
  • BJARG íbúðafélag um leiguíbúðir fyrir láglaunafólk, stofnað með kjarasamningum árið 2015
  • Áherslur í velferðarmálum – þrýst á uppfærslur upphæða og skerðingarreglna í velferðarkerfinu (hluti af kjarasamningum).
  • Áherslur til umbóta í skattamálum, húsnæðismálum, fjölskyldumálum og almennum réttindum.
  • Lífskjarasamningur árið 2019.

Við kunnum fleiri dæmi úr sögu seinustu aldar um stórmál, sem breyttu þjóðfélaginu til hins betra og náðu fram að ganga á Alþingi með samningum við andstæðinga í samsteypustjórnum. Dæmi: Almannatryggingar (1936), heildarendurskoðun almannatrygginga (1946), lögfesting á samningsrétti stéttarfélaga um kaup og kjör (1938), sömu laun fyrir sömu vinnu (1960), útfærsla landhelginnar (1954-75) í 200 sjómílur, inngangan í EFTA (1970), skattkerfisbyltingin (1987/88) og EES-samningurinn (1994), sem hefur verið helsti burðarás íslensks efnahagslífs alla tíð síðan. Allt eru þetta dæmi um alvörustjórnmál, sem skila árangri.

Sameinumst um meginmarkmiðin.

Í upphafi þessarar greinar var að því vikið, að alvörupólitík snerist hvorki um samkvæmisleiki né sýndarmennsku. Hún snýst um völd. Völd fjármagnseigenda í efnahagslífinu eru mikil. Sölsi þeir líka undir sig pólitíska valdið, skapast hætta á auðræði. Við slíkar kringumstæður er ekkert andstöðuafl (e. „counterveiling power“ sbr. Galbraith). Þar með er tómt mál að tala um lýðræði nema sem sýndarveruleika. Bandarískt lýðræði ber nú þegar greinileg sjúkdómseinkenni þessa ástands.

Veikleiki íslenska flokkakerfisins er, að þar er hvergi lengur að finna hinn pólitíska arm verkalýðshreyfingarinnar, sem hefur vald hennar að bakhjarli; og hefur þar með burði til að breyta þjóðfélaginu í þágu almannahagsmuna, þegar á reynir. Hættan er sú, ef upp sprettur fjöldi smáflokka, að þeir verði lítið annað en málfundaklúbbar, sem fá engu breytt sem máli skiptir. Reynslan sannar þetta: Lýðræðisflokkurinn, Þjóðvarnarflokkurinn, Flokkur mannsins, Bandalag jafnaðarmanna, Frjálslyndi flokkurinn, Þjóðvaki, Björt framtíð og hvað þeir nú allir hétu - allt er þetta gleymt og grafið.

Kvennalistinn var dæmi um eins máls flokk. Óbeinu áhrifin voru þau, að aðrir flokkar fjölguðu konum í framboði. En almenningur er að engu bættari þótt kvenlögfræðingum fjölgi í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Hugmyndafræði feminismans heyrir undir mannréttindi. Mannréttindabaráttan á heima í breiðfylkingu umbótaafla, þar sem baráttan er háð á mörgum sviðum. Slík breiðfylking þarf að sameinast um meginmarkmiðin. Og hún verður að hafa umburðarlyndi gagnvart ágreiningi um framkvæmdir eða minniháttar mál.

Stóru umbótamálin

Hver eru stóru málin sem umbótaöflin verða að sameinast um og hrinda í framkvæmd til þess að breyta þjóðfélagi í vanda til hins betra? Hér kemur listinn:

  1. Þjóðareign á auðlindum: Við þurfum að taka af skarið um, að allar auðlindir Íslendinga, hverju nafni sem nefnast, á láði, legi eða lofti, skuli vera þjóðareign. Það á ekki bara við um sjávarauðlindina. Það á líka við um landið utan eignarmarka bújarða og um alla virkjunarkosti, þ.m.t. framleiðslu og dreifingu á orku. Og það á við um vatnið, sem fyrirsjáanlega mun verða verðmætasta auðlind okkar í framtíðinni. Sérstaklega verðum við að varast það að missa forræði yfir orkulindunum. Reynsla okkar af framleiðslu og dreifingu orku sem óhagnaðardrifinni samfélagsþjónustu er góð. Hana ber að varðveita. Sömu sögu er að segja um landið sjálft og gæði þess.
  2. Auðlindarentan renni í þjóðarsjóð. Einkavæðing sjávarauðlindarinnar í trássi við lög og reglur er sárasta meinsemd okkar samfélags í dag. Hundruð milljarða af almannafé – auðlindarenta s.l. hálfan annan áratug – hefur í skjóli pólitísks valds verið afhent fámennum hópi forréttindaaðals til eignar og erfða. Þar með hefur verið sköpuð ofurrík forréttindastétt með gríðarleg pólitísk völd, sem eru lífshættuleg lýðræðinu í svo fámennu samfélagi. Það eru að verða seinustu forvöð að breyta þessu. Um þetta meginmál verður breiðfylking umbótaafla að sameinast. Við þurfum ekki að finna upp hjólið í þeim efnum. Þar nægir að læra af reynslu Norðmanna sem vísa heiminum veginn varðand nýtingu auðlinda í þjóðareign.
  3. Réttlátt skattkerfi. Það verður að snúa við „stóru skatttilfærslunni“ til fyrra horfs og leiðrétta ofurskattlagningu ríkisins á tekjum lífeyrisþega. Í skattkerfisbyltingunni sem ég stóð fyrir 1987/88 – staðgreiðslukerfi skatta með meiru – fengu hinir lægstlaunuðu meira frá skattinum en þau borguðu í staðgreiðslu (bls. 195). Það var vegna þess að skattleysismörk voru hærri en lægstu laun og óskertur lífeyrir almannatrygginga, og að auki fékk tekjulágt fólk barnabætur og vaxtabætur frá ríkinu. Skattrannsóknir verður að efla með það fyrir augum að loka undankomuleiðum hinna ofurríku frá því að borga sinn skerf til samfélagsins. Breyta þarf því, að þeir sem einkum njóta arðs af fjármagni, greiði ekkert til sinna sveitarfélaga. Stórauknar rannsóknir undanfarinna ára á skattundandrætti og svikum hinna ofurríku (skattaparadísir teljast vera allt að þriðja stærsta hagkerfi heimsins á tímum nýfrjálshyggjunnar) hefur bætt þekkingu okkar á því, hvernig þjóðríkin geta framfylgt réttlátu skattkerfi út yfir landamæri þjóðríkja.
  4. Endurreisn félagslega húsnæðiskerfisins. Það er varla til sú borg í Evrópu sem ekki á að baki langa sögu um félagsleg úrræði í húsnæðismálum. Markmiðið á að vera að fimmtungur til þriðjungur alls íbúðahúsnæðis verði byggður undir formerkjum óhagnaðardrifinnar samfélagsþjónustu. Réttur fjölskyldna til mannsæmandi húsnæðis á viðráðanlegum kjörum og til langs tíma flokkast undir mannréttindi. Um þetta verkefni eiga ríkið, sveitafélög og verkalýðshreyfingin að sameinast.
  5. Heilbrigt heilbrigðiskerfi. Það þarf að binda endi á fjársvelti heilbrigðisþjónustunnar. Eðlilegt viðmið er, að um 11% af landsframleiðslu verði varið til heilbrigðisþjónustunnar í stað 8.6% (árið 2019, bls. 318).Skv. reynslu nágrannaþjóða okkar dugir það til að fjármagna góðan aðbúnað heilbrigðisstofnana, bæta kjör starfsfólks, binda endi á biðlista og tryggja aðgengi að sérfræðiþjónustu á viðráðanlegum kjörum.
  6. Framleiðsla og dreifing orku úr hreinum og endurnýjanlegum orkulindum verði hér eftir sem hingað til á forræði ríkisins. Það er frumforsenda þess, að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar um að draga úr mengun andrúmsloftsins af mannavöldum. Það getum við því aðeins, að orkugeirinn verði áfram á forræði ríkisins sem óahagnaðardrifin samfélagsþjónusta.
  7. Aðlögun innflytjenda: Ágreiningslaust er, að Ísland á að standa við skuldbindingar sínar skv. fjölþjóðasamningum um að taka við hælisleitendum á sómasamlegan hátt. Að öðru leyti verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Það þýðir, að raunsætt mat á getu okkar til að aðlaga fjölda innflytjenda að íslensku þjóðfélagi hlýtur að ráða fjölda innflytjenda frá ári til árs. Reynsla grannþjóða af vandræðum vegna vanmats að þessu leyti og vanefnda (húsnæði, atvinna og skólaganga barna o.fl.) er víti til að varast.
  8. Alþjóðlega traustur gjaldmiðill og afnám verðtryggingar. Þetta er verkefni sem breiðfylking umbótaafla verður að ná samstöðu um til langs tíma. Það er ekki tilefni til skyndiákvarðana. En lausn á þessum vanda er skilyrði fyrir því, að aðrar umbætur skili árangri þegar til lengri tíma er litið.

Lokaorð

Í upphafi þessarar greinar var bók Stefáns Ólafssonar lýst sem handbók umbótamannsins. Bókin er náma upplýsinga um það sem máli skiptir. Þar er að finna nánari útfærslu á flestum þeim umbótatillögum, sem hér hafa verið reifaðar, þótt ekki sé listinn tæmandi. En þó orð séu til alls fyrst og nákvæm útfærsla þessara tillagna í lagaformi sé nauðsynleg, „gjörir það öngva stoð“, ef ekki fylgir afl að baki, sem getur hrundið tillögunum í framkvæmd. Pólitík er nefnilega ekki samkvæmisleikur og sýndarmennska. Pólitík snýst um völd.

Ég geri það hér með að tillögu minni, að Alþýðusamband Íslands – heildarsamtök vinnandi fólks – ráði Stefán Ólafsson til sín og feli honum, í samráði við sérfræðinga að hans vali í skattamálum, auðlindapólitík og peningamálahagfræði, að útfæra þessar tillögur í heildstætt prógram fyrir næstu kosningar. Og kveðji svo til fulltrúa þeirra sex stjórnmálaflokka. sem nú keppa innbyrðis um fylgi fólks í stjórnarandstöðu, að sameinast í kosningabandalagi, þar sem þeir skuldbindi sig til samstarfs um þessi meginmál. Þar með gæfist íslenskum kjósendum tækifæri til þess í fyrsta sinn að velja milli skýrt afmarkaðra valkosta, sem eru: Óbeislaður kapítalismi að hætti USA eða norrænt velferðarríki.

Höfundur var formaður Alþýðuflokksins – jafnaðarmannaflokks Íslands, 1984-1996.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×