Stýrivextir Seðlabankans hafa hækkað skarpt frá því í maí 2021. Þá stóðu þeir í 0,75 prósent. Stýrivextir nú eru hins vegar sex prósent, eftir 0,25 prósentu hækkun á síðasta fundi Peningastefnunefndar bankans. Það var tíunda hækkunin í röð.
Útlit er fyrir að þessi hækkunarhrina haldi áfram, ef marka má nýjustu Hagsjá Landsbankans. Í henni telja sérfræðingar bankans líklegast að Seðlabankinn muni hækka vexti um 0,5 prósentur, úr sex prósent í 6,5 prósent. Ákvörðun Seðlabankans verður kynnt næstkomandi miðvikudagsmorgun.
„Það má færa rök fyrir minni hækkun, en miðað við núverandi ástand, og umræðuna í þjóðfélaginu, mun nefndin líklegast líta svo á að senda þurfi skýr skilaboð um að böndum verði náð á verðbólgu,“ segir í Hagsjánni.
Nýjustu verðbólgutölur sýna að verðbólga mælist nú 9,9 prósent.
Segir í Hagsjánni að líklega muni Peningastefnunefnd Seðlabankans skoða vaxtahækkun á bilinu 0,25 til 0,75 prósentur. Telur Landsbankinn þó að 0,25 prósentu hækkun væru ekki nægilega skýr skilaboð af hálfu Seðlabankans.
Þá mæli þeir háu vextir sem nú þegar eru til staðar gegn því að hækka stýrivextina um meira en 0,5 prósentustig, auk þess sem að stutt sé í næstu ákvörðun á eftir þeirri sem tekin verður í næstu viku.
Hagsjá Landsbankans má lesa hér.
Hvað eru stýrivextir?
Stýrivextir eru þeir vextir seðlabanka kallaðir sem hafa áhrif á aðra vexti í hagkerfinu, t.d. á bílalánum eða húsnæðislánum eða vexti á sparnaðarreikningum. Þar með hafa stýrivextir og breyting á þeim áhrif á eftirspurn og framboð af peningum og þannig á það magn peninga í umferð sem hægt er að nota til að kaupa og fjárfesta fyrir – eða spara.
Ef þessir vextir seðlabanka eru lágir hafa fólk og fyrirtæki tilhneigingu til að spara minna en taka meira að láni og kaupa og fjárfesta meira. Þá er eftirspurn meiri eftir vörum og þjónustu, verð hefur tilhneigingu til að hækka og verðbólga er að jafnaði meiri. Hið gagnstæða gerist ef vextir eru háir eða eru hækkaðir.
Heimild: Seðlabankinn