Handbolti

Sjáðu kveðjustund strákanna okkar í Scandinavium

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir fagna með stuðningsfólkinu í leikslok í gær.
Strákarnir fagna með stuðningsfólkinu í leikslok í gær. Vísir/Vilhelm

Strákarnir okkar björguðu andlitinu í seinni hálfleik á móti Brasilíu og fengu söng að launum í leikslok.

Íslenska liðið vann 41-37 sigur sem þýðir að liðið endar með fjóra sigra í sex leikjum. Það dugði ekki til að komast í átta liða úrslitin því þangað fara Ungverjar á sigri í innbyrðis leik liðanna í riðlakeppninni.

Miklar væntingar voru gerðar til liðsins á þessu móti sem þeir stóðu ekki undir og draumurinn um Ólympíusæti í París 2024 er svo gott sem dáinn eftir þetta mót.

Stuðningsfólkið sá hins vegar til þess að gera þetta mót að mörgu leyti ógleymanlegt. Fjölmargir íslenskir stuðningsmenn kölluðu fram gæsahúð með því að syngja fyrir og eftir leiki liðsins fyrir utan auðvitað að hvetja strákana áfram í leikjunum sjálfum.

Það var því vel við hæfi að stuðningsfólkið hafi boðið upp á enn eitt geggjaða gæsahúðarmómentið fyrir íslenska strákana í gær.

Handknattleikssamband Íslands setti inn kveðjusönginn í Scandinavium í höllinni í gær þar sem fjölmargir stuðningsmenn íslenska liðsins sungu saman lagið Ferðlag sem flestir þekkja sem Ég er kominn heim.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá strákana hlusta á stúkuna syngja: Sól slær silfri á voga, sjáðu jökulinn loga. Allt er bjart fyrir okkur tveim, því ég er kominn heim. Að ferðalokum finn ég þig sem mér fagnar höndum tveim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×