Handbolti

Norð­menn örugg­lega í átta liða úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Goran Johannessen var markahæstur í liði Noregs í dag.
Goran Johannessen var markahæstur í liði Noregs í dag. Jan Woitas/Getty Images

Noregur er komið í 8-liða úrslit HM í handbolta þökk sé mjög svo öruggum sigri á Katar í milliriðli þrjú. Þá vann Króatía þægilegan sigur á Belgíu í milliriðli fjögur.

Norðmenn hófu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu fimm mörk dagsins. Sú forysta hélst allt þangað til í hálfleik, staðan þá 14-9. Forystan varð stærri eftir því sem leið á síðari hálfleikinn og þegar flautað var til leiksloka var munurinn kominn í 13 mörk. Lokatölur 30-17 Noregi í vil.

Goran Johannessen var markahæstur hjá Noregi með 6 mörk. Abdelrahman Abdalla var markahæstur hjá Katar með 5 mörk.

Noregur er með fullt hús stiga á toppi milliriðils þrjú og er komið í 8-liða úrslit keppninnar. Þjóðverjar geta gert slíkt hið sama með sigri á Hollandi í kvöld. Katar er hins vegar án stiga í riðlinum.

Króatía vann átta marka sigur á Belgíu, lokatölur 34-26. Króatía er í 3. sæti og þarf að treysta á að Danmörk misstígi sig til að komast áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×