Handbolti

Ljósmyndarar á HM varaðir við þjófum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ljósmyndarar og aðrir áhorfendur á heimsmeistaramótinu í handbolta eru beðnir um að skilja eigur sínar ekki eftir í bílum fyrir utan vellina.
Ljósmyndarar og aðrir áhorfendur á heimsmeistaramótinu í handbolta eru beðnir um að skilja eigur sínar ekki eftir í bílum fyrir utan vellina. Vísir/Vilhelm

Ljósmyndarar sem staddir eru í Svíþjóð að taka myndir af heimsmeistaramótinu í handbolta hafa margir hverjir lent í því að dýrum búnaði þeirra sé stolið úr bílum þeirra á meðan að mótinu stendur.

Ástandið virðist orðið svo slæmt að Alþjóðahandknattleikssambandið IHF hefur séð sig knúið til að senda út tilkynningu til að vara sérstaklega við þjófnaðnum. Einn ljósmyndari frá Þýskalandi var til að mynda plataður og rændur.

Í tilkynningu sinni biðlar IHF til ljósmyndara, sem og annarra, að skilja eigur sínar ekki eftir í bílum fyrir utan leikvanga mótsins.

„Okkur hafa borist fréttir af því að brotist hafi verið inn í bíla og munum stolið á bílastæðum fyrir utan leikvanga á HM í Svíþjóð,“ segir í tilkynningunni.

„Þeir sem hafa orðið fyrir barðinu eru ljósmyndarar sem vinna á mótinu og þeir hafa tapað mikilvægum og dýrum búnaði.“

„Á stórum viðburðum sem þessum eykst hættan á glæpum. Þess vegna biðjum við alla að skilja eigur sínar ekki eftir án þess að fylgst sé með þeim. Þá biðjum við fólk einnig um að skilja ekkert eftir í bílum fyrir utan leikvangana - jafnvel þó aðeins sé um að ræða stutta stund. Verið sérstaklega á verði þegar verið er að hlaða í og úr bílum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×