Handbolti

Pressan engin afsökun

Stefán Árni Pálsson skrifar
Aron segist finna vel fyrir pressunni frá þjóðinni og telur það einfaldlega vera mikla hvatningu. 
Aron segist finna vel fyrir pressunni frá þjóðinni og telur það einfaldlega vera mikla hvatningu.  vísir/vilhelm

„Þetta er frábær höll. Ég hef spilað hérna einu sinni eða tvisvar með landsliðinu og félagsliði á móti Óla [Guðmundssyni] og þeim í Meistaradeildinni og hér myndast mikil stemning og þetta er algjör gryfja,“ segir Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, fyrir fyrstu æfingu landsliðsins á HM í handbolta en liðið mætir Portúgal í fyrsta leik mótsins annað kvöld.

Búist er við hátt í þúsund Íslendingum á leikinn.

„Þetta verður vonandi eins og að spila á heimavelli fyrir okkur. Við erum búnir að undirbúa okkur mjög vel fyrir þennan fyrsta leik og höfum haft ágætis tíma fyrir það. Við erum frekar öruggir með hvað vil viljum gera og hvað við ætlum að gera. Það er komin ákveðin spenna í hópinn, það er hungur í hópnum og menn eru rosalega klárir í það að gera vel.“

Aron segist gera sig fyllilega grein fyrir þeirri spennu og væntingum sem eru heima á Íslandi fyrir mótinu.

„Auðvitað hefur þetta einhver áhrif, þannig. En ekki eitthvað sem við eigum að þurfa eða getað notað sem einhverja afsökun. Við hörfum á þetta meira sem hvatningu. Það eru allir að tala um þetta á Íslandi og það er auðvitað jákvætt. En þegar fólk er að tala um hvernig við eigum að gera hlutina, það er eitthvað sem við tökum alls ekki inn á okkur og hlustum ekki mikið á. Við vitum hvað við getum, hvað við viljum gera og hvernig við viljum spila. Það er það sem skiptir öllu máli.“

Klippa: Aron Pálmarsson: Pressan engin afsökun



Fleiri fréttir

Sjá meira


×