Handbolti

„Er hundrað prósent heill“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Aron Pálmarsson er fyrirliði íslenska landsliðsins og segist vera í hörkustandi fyrir fyrsta leik gegn Portúgal á HM. 
Aron Pálmarsson er fyrirliði íslenska landsliðsins og segist vera í hörkustandi fyrir fyrsta leik gegn Portúgal á HM.  Vísir/vilhelm

„Við fengum þau svör sem við bjuggumst í rauninni við. Við vorum búnir að ræða hlutina heima og vissum alveg hvað tæki lengsta tímann til að smella saman. Það hefur yfirleitt verið þannig að fínpússa vörnina tekur mestan tíma,“ segir Aron Pálmarsson fyrir fyrstu æfingu íslenska landsliðsins í Kristanstad Arena fyrr í dag.

Íslenska liðið vann eins marks sigur á Þjóðverjum á laugardaginn og tapaði síðan fyrir sama liði á sunnudaginn í tveimur æfingarleikjum fyrir mót.

„Við fengum ákveðin svör en annars voru þetta bara tveir mjög góðir leikir og það er frábært að fá svona hörkuleiki og alvöru leiki fyrir svona mót.“

Aron spilaði fyrri leikinn en var utan hóps í seinni leiknum. Hann segist samt sem áður vera í hörkustandi.

„Það var annað hvort að spila mér þrjátíu mínútum í báðum leikjum eða heilan annan leikinn. Það var tekin sú ákvörðun að spila mér einn heilan leik en ég er hundrað prósent heill en það er fínt fyrir mig að eyða kannski ekki of mikilli orku fyrir mót, heldur frekar mæta ferskari.“

Portúgal er fyrsti andstæðingur Íslands en liðið hefur mætt þeim nokkuð oft á síðustu stórmótum og oft á tíðum einmitt í fyrsta leik.

„Við höfum mætt þeim oft en þetta er í rauninni svolítið breytt lið. Útilínan hjá þeim er í raun alveg ný með þremur splunkunýjum leikmönnum. Liðið er að spila aðeins öðruvísi eða hafa verið að gera það í sínum undirbúningsleikjum. Fyrsti leikur er alltaf spennandi og það er það eina sem við erum að pæla í, við erum ekkert að hugsa út í annan eða þriðja leik. Við ætlum okkur augljóslega að ná í tvö stig upp á framhaldið að gera.“

Hér að neðan má sjá viðtalið við Aron. 

Klippa: Viðtal við fyrirliðann: Aron heill fyrir HM



Fleiri fréttir

Sjá meira


×