Viðskipti innlent

Spá ferða­manna­fjölda á pari við 2018

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Ferðamönnum fjölgar áfram og verða þeir fleiri en 2 milljónir á þessu ári ef spár Ferðamálastofu ganga eftir.
Ferðamönnum fjölgar áfram og verða þeir fleiri en 2 milljónir á þessu ári ef spár Ferðamálastofu ganga eftir. Vísir/Vilhelm

Viðsnúningurinn í fjölda ferðamanna var hraðari en Ferðamálastofa bjóst við en 146 prósent aukning var á komum ferðamanna milli ára. Stofnunin spáir 2,3 milljónum ferðamanna á árinu sem er svipað og metárið 2018. Íslendingar voru einnig fljótir að taka við sér en áfangastaðirnir hafa lítið breyst.

Ekkert lát er á komum ferðamanna til landsins og hefur ferðamálastofa gefuð út nýjar tölur sem sýna að upprisa Íslands sem ferðamannastaðar eftir heimsfaraldurinn hefur verið mjög hröð. Næstum 1,7 milljónir ferðamanna komu til landsins árið 2022 sem er svipað og árið 2016 og um 73% þeirra komu á síðari hluta ársins en ferðatakmörkunum var aflétt seint í febrúar.

Jakob Rolfsson, forstöðumaður rannsókna og tölfræðisviðs hjá ferðamálastofu, segir tölurnar strax hafa leitað uppávið eftir afléttingar.

„Við sjáum náttúrulega eftir að öllum afléttingum var, eftir að takmörkunum var aflétt 25. febrúar þá tók þetta svona ágætist kipp aftur. Þrátt fyrir það að ferðamenn hafi náttúrulega getað komið hingað með bólusetningarvottorð og vottorð um pcr próf eða að þeir hafi fengið smit áður, vegna covid. Þá sáum við ferðamenn snúa aftur til landsins bara í þónokkuð meira magni en við var búist.“

Ferðamálastofa spáir áframhaldandi aukningu í fjölda ferðamanna.

„Í okkar spám fyrir þetta ár þá gerum við ráð fyrir 2,3 milljónum ferðamanna. Það er álíka og 2018 og inni í þeirri spá gerum við ráð fyrir því að Kínverjarnir komi aftur.“

En hefur stofnunin áhyggjur af fréttum af manneklu í ferðaþjónustunni?

„Við höfum vissulega áhyggjur en það er nú ekkert eitthvað held ég sem að ekki sé hægt að leysa sko.“

Íslendingar voru ekki síður fljótir að taka við sér en sjást einhverjar breytingar á áfangastöðum Íslendinga

„Nei áfangastaðir Íslendinga hafa í rauninni ekkert breyst neitt mikið. Við erum sólþyrst þjóð og förum til og höfum verið að fara mikið til í þessar borgarferðir náttúrulega til Köben og London og svo einhverjar millilandalendingar þaðan. En fyrst og fremst er þetta Tenerife og Spánn.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×