Handbolti

Spillingarbælið IHF: Vafasamar millifærslur, dómarasvindl og gefins sæti á stórmótum

Ósætti handboltahreyfingarinnar við Covid-takmarkanir á komandi heimsmeistaramóti í handbolta bætist á langan lista þess sem má telja gagnrýnivert við stjórnarhætti Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF. Þar hefur Egyptinn Hassan Moustafa setið óáreittur á valdastóli frá árinu 2000.

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hassan Moustafa er forseti IHF. Martin Rose/Bongarts/Getty Images

Ósætti handboltahreyfingarinnar við Covid-takmarkanir á komandi heimsmeistaramóti í handbolta bætist á langan lista þess sem má telja gagnrýnivert við stjórnarhætti Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF. Þar hefur Egyptinn Hassan Moustafa setið óáreittur á valdastóli frá árinu 2000.

Moustafa var kjörinn forseti á aldamótaárinu og tók þar við af Austurríkismanninum Erwin Lanc sem hafði þá verið forseti sambandsins í 16 ár, frá árinu 1984. Lanc bauð sig þá fram til endurkjörs en dró það framboð til baka skömmu fyrir kosningar.

Strax fóru á flug sögusagnir um mútuþægni þeirra kjörgengu og að Moustafa hefði hreinlega keypt sér forsetastólinn. Árið 2004 var Moustafa endurkjörinn er hann vann stórsigur á Svíanum Staffan Holmqvist með 85 atkvæðum gegn 46.

Einar Þorvarðarson var framkvæmdastjóri HSÍ í 16 ár.Mynd/Vísir

Einar Þorvarðarson, fyrrum framkvæmdastjóri HSÍ, sat það þing og gaf á þeim tíma lítið fyrir meinta mútuþægni í samtali við Henry Birgi Gunnarsson á DV. Þó væri hann hræddur við það að Moustafa væri við taumana.

„Ég veit ekkert hversu mikið er að marka þessar sögusagnir um spillingu og mútuþægni í hreyfingunni. Þessi maður kemur frá stað þar sem siðferðið er ekki það sama og í Evrópu. Þar geta menn komið sér áfram með mútum og öðru og maður er alltaf hræddur við að hafa slíkan mann við stjórnvölin. Þetta hefur samt gengið stórslysalaust hjá honum hingað til og vonandi verður framhald á því,“ sagði Einar fyrir rúmum 18 árum síðan.

Sitthvort fyrirtækið, sami samningsaðili

Moustafa hefur sætt fjölmörgum ásökunum um spillingu á rúmum 22 árum hans á forsetastóli. Hann hefur rekið flestalla þá sem hafa gagnrýnt hann innan úr sambandinu í gegnum árin og gríðarháar fjárhæðir sem fara í gegnum sambandið eru sagðar skila sér í vasa hans.

Þýskir saksóknarar rannsökuðu Moustafa vegna meintrar spillingar og mútuþægni árið 2011 en hann var þá sagður hafa þegið um 600 þúsund evrur, rúmar 90 milljónir króna, vegna sjónvarpssamninga IHF í kringum keppnir á vegum sambandsins.

Þýska fyrirtækið Sportfive keypti réttinn að keppnunum fyrir árin 2006 til 2009 á 24 milljónir evra, en Moustafa á að hafa þegið 600 þúsund evrurnar fyrir að veita fyrirtækinu ráðgjöf við kaupin. Hann var auðvitað sá sem seldi réttinn til fyrirtækisins sem forseti söluaðilans, og sat því beggja megin borðs.

Svipaðar ásakanir spruttu upp í kringum sölu á sjónvarpsrétti frá 2009 til 2013. Þá var kaupaandinn annað þýskt fyrirtæki, UFA, sem borgaði 48 milljónir evra fyrir þau ár. Í tengslum við þá samningagerð á Moustafa að hafa fengið 800 þúsund evrur í vasann.

Robert Muller von Vultejus var yfir samninganefnd kaupendanna beggja. Hann fór fyrir kaupum Sportfive árið 2006 en hafði fært sig yfir til UFA sem keypti réttinn þremur árum síðar.

Þýsk yfirvöld rannsökuðu sömuleiðis síðari samninginn en hvorug rannsóknin leiddi til ákæru á hendur einum né neinum.

Forkeppnin sem þurfti að endurtaka

Moustafa hefur vakið athygli fyrir fjölmargt annað en viðtöku illa fengins fjár. Hann var sakaður um að spilla Asíu-forkeppni Ólympíuleikanna í Peking árið 2008 þar sem afar vafasamir dómar féllu í ákveðnum leikjum.

Kúveit hafði þá betur gegn Japan í leik sem hafði mikið að segja um niðurstöðu keppninnar. Þann leik dæmdu tveir Jórdanar, sem kallaðir voru til borðsins skömmu fyrir leik, á kostnað reynslumikils þýsks dómarapars. Í ljós kom að jórdanska parið hafði ekki einu sinni réttindi til að dæma leiki á svo háu stigi og að ákvörðunin um að láta það dæma leikinn hafi verið í óþökk Alexander Kozukhov, starfsmann IHF, sem fór með dómaramálin.

Skjöl sem þýski miðillinn Der Spiegel hafði undir höndum á þeim tíma sýndu fram á að Moustafa hefði fengið fax frá Sjeik Ahmed al-Fahd al-Sabbah, forseta kúveiska handknattleikssambandsins, í aðdraganda móts. Enn fremur sýni skjölin fram á að Moustafa hafi átt við dómaramál leiksins.

Eftir afar mikla pressu víða að gaf Moustafa undan. Vegna spillingar mótsins þurfti að spila forkeppnina upp á nýtt örfáum mánuðum fyrir mót, en Moustafa neitaði sök og afleiðingarnar urðu engar.

Þegar Þjóðverjum var gefið sæti

Mikla athygli vakti árið 2014 þegar Þýskalandi, stærstu handboltaþjóð heims, sem býr einnig að stærstu deildarkeppni heims, mistókst að komast á HM 2015 í Katar í gegnum forkeppnina í Evrópu.

Dagur Sigurðsson var þjálfari Þýskalands á HM 2015.Christof Koepsel/Bongarts/Getty Images

IHF hefði orðið fyrir gífurlega miklu tekjutapi ef Þjóðverjar tækju ekki þátt á mótinu, enda landið stærsta markaðssvæði handboltans.

Í kjölfarið, sumarið 2014, tilkynnti IHF að eina sæti Eyjaálfu á mótinu yrði afnumið. Eyjaálfa ætti ekki álfusamband sem hefði aðild að IHF og á þeim forsendum skyldu Eyjaálfumeistarar Ástralíu missa sæti sitt á mótinu.

Þess í stað yrði úthlutað svokölluðu wildcard-sæti. Það sæti skyldi hljóta það lið sem náði bestum árangri á síðasta heimsmeistaramóti en ekki væri búið að tryggja sæti sitt á komandi móti. Hvaða lið féll undir þessi skilyrði?

Auðvitað þýska landsliðið.

Nokkrum mánuðum síðar fengu Strákarnir okkar líka wildcard-sæti á mótinu, sem og Sádí-Arabía. Þau komu inn eftir að Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin neituðu að taka þátt í móti í grannríkinu Katar.

„Eins manns stjórn“

Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson fengu að finna fyrir Moustafa.Vísir/Vilhelm

Athygli vakti hér á Íslandi þegar alþjóðadómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson voru sendir heim frá HM kvenna í Danmörku árið 2015, eftir að mistök urðu í leik undir þeirra stjórn. Þar klikkaði tæknimaður marklínutækninnar í þeim leik en Anton og Jónas voru metnir samsekir og voru allir þeir sem komu að framkvæmd leiksins skipað heim á leið.

„Það er mjög einkennilegt að það sé verið að refsa þeim fyrir eitthvað sem þeir gera hárrétt. Þetta er ekki í anda íþróttanna alla vega,“ sagði Guðjón L. Sigurðsson, formaður dómaranefndar HSÍ, um málið við RÚV á sínum tíma.

„Sagan lýgur ekki. Við þekkjum það og því miður þá virðist stjórnunin á þessu apparati þannig að þetta er eins manns stjórn sem lýtur ákveðnum reglum sem hann einn ákveður,“ sagði Guðjón enn fremur og vísað þar til Hassans Moustafa.

Ósáttur við Skandinavíuþjóðir

Í hitteð-fyrra, árið 2021, sagði Spánverjinn Ramón Gallego upp sem formaður reglu- og dómaranefndar IHF vegna afskipta Moustafa af störfum hans. Moustafa beitti sér þá fyrir því að dómarar frá skandinavískum þjóðum skildu ekki dæma leiki nágrannalanda sinna.

Þetta spratt upp eftir að norska dómaraparið Håvard Kleven og Lars Jørum voru með flautuvöld í eins marks sigri Svíþjóðar á heimaþjóð Moustafa, Egyptalandi, á HM í Egyptalandi árið 2021.

„Þú kemur fram við mig eins og barn. Vanvirðing þín fyrir 40 ára starfi mínu innan alþjóða handboltahreyfingarinnar er að engu höfð,“ var haft eftir Gallego eftir uppsögnina.

Koma illa út í alþjóðlegum samanburði

Fræðimaðurinn Arnout Geeraert er á meðal þeirra fremri í heiminum þegar kemur að stjórnarháttum íþróttasambanda. Samkvæmt þekktri fræðilegri úttekt hans á stórum alþjóðlegum íþróttasamböndum frá árinu 2018 er pottur víða brotinn hjá Alþjóðahandknattleikssambandinu.

Tölur IHF úr rannsókn Geeraerts.Skjáskot/Geeraert 2018

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur sætt töluverðri gagnrýni undanfarin ár líkt og rakið hefur verið til að mynda hér og hér. FIFA lítur aftur á móti út líkt og fyrirmyndarstofnun í samanburði við IHF í rannsókn Geeraert.

Greining hans var unnin fyrir samtökin Play The Game sem vinna að því að uppræta spillingu í íþróttum. Greiningin skiptist í grunninn niður í fjóra megin flokka. Þar fékk IHF 23 prósent skor í gagnsæi, 45 prósent í lýðræðislegum ferlum, 47 prósent í innri ábyrgð og 34 prósent í samfélagslegri ábyrgð.

Heildarskor IHF sem reiknað var út frá þeim tölum var upp á 37 prósent.

Til samanburðar var heildarskor FIFA 61 prósent.

Bágar líkur á bótum í bráð

Hér er stiklað á stóru sem drifið hefur á daga Hassans Moustafa í forsetaembætti hjá IHF. Þeir dagar eru nú orðnir rúmlega átta þúsund.

Líkt og fram kom að ofan voru tilraunir gerðar til að koma öðrum forseta að hjá sambandinu er Moustafa sigraði Svíann Staffan Holmqvist árið 2004 og þá vann hann enn stærri kosningasigur á Lúxemborgaranum Jean Kaiser árið 2009.

Enginn hefur hins vegar boðið sig fram gegn Egyptanum á síðustu þremur kjörþingum IHF og hlaut hann síðast fjögurra ára framlengingu á valdatíð sinni árið 2021. Ekkert takmark er á kjörtímabilafjölda forseta IHF og ekki útlit fyrir að farandfótur sé á einráðinum Moustafa í bráð.






×