Körfubolti

Öruggt hjá Haukum og Grinda­vík | Tíma­spurs­mál hve­nær ÍR fellur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Keira Robinson var frábær í kvöld.
Keira Robinson var frábær í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Haukar og Grindavík unnu góða sigra í Subway deild kvenna í körfubolta í kvöld.

Haukar fengu Breiðablik í heimsókn og gerðu út um leikinn í öðrum leikhluta þegar heimaliðið skoraði 21 stig gegn aðeins sex hjá gestunum úr Kópavogi. Lokatölur 68-46 og Haukar eru því enn í hálsmálinu á toppliði Keflavíkur sem vann einnig sinn leik í kvöld.

Keira Robinson var stigahæst í liði Hauka með 20 stig ásamt því að taka 7 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Þar á eftir kom Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir með 14 stig. Hjá Blikum skoraði Sanja Orozovic 14 stig ásamt því að taka 11 fráköst.

ÍR átti aldrei möguleika gegn Grindavík en heimaliðið var Kanalaust í kvöld, samkvæmt heimildum Vísis er  Jamie Janesse Cherry farin heim og mun ekki koma aftur. Sást það á frammistöðunni í upphafi leiks en ÍR skoraði aðeins þrjú stig í fyrsta leikhluta. Lokatölur í Breiðholti 46-80 og má segja að sigur Grindavíkur hafi aldrei verið í hættu. 

ÍR er enn án sigurs í deildinni á meðan Grindavík er svo gott sem búið að tryggja sæti sitt í deildinni miðað við gengi Breiðabliks um þessar mundir.

Greeta Uprus skoraði 14 stig og tók 14 fráköst í liði ÍR. Hulda Björk Ólafsdóttir og Elma Dautovic voru með 22 stig hvor í liði Grindavíkur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×