Körfubolti

Jóla­krafta­verk í Brook­lyn: Unnið átta í röð og lögðu topp­liðið örugg­lega

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kyrie Irving og Kevin Durant eru í jólaskapi.
Kyrie Irving og Kevin Durant eru í jólaskapi. Dustin Satloff/Getty Images

Fyrr á leiktíðinni virtist sem allt væri á leiðinni í bál og brand hjá Brooklyn Nets í NBA deildinni í körfubolta. Nú leikur hins vegar allt í lyndi og liðið virðist til alls líklegt.

Það er aldrei skortur á dramatík og sögulínum í kringum Kevin Durant og Kyrie Irving. Þegar tímabil Nets virtist einfaldlega á leiðinni í ruslið sneru þeir saman bökum og rifu liðið upp. Í nótt vann liðið frábæran 18 stiga sigur á Milwaukee Bucks, toppliði Austurdeildar. Lokatölur 118-100 þökk sé frábærri liðsframmistöðu.

Durant var stigahæstur með 24 stig ásamt því að gefa 6 stoðsendingar og taka 5 fráköst. Þar á eftir kom Nic Claxton með 19 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Kyrie skoraði svo 18 stig, tók 9 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Hjá Bucks var Giannis Antetokounmpo stigahæstur með 26 stig en hann tók einnig 13 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.

Gott gengi Denver Nuggets, toppliðs Vesturdeildar, hélt áfram en liðið vann Portland Trail Blazers með 13 stiga mun, lokatölur 120-107. Denver nú unnið þrjá leiki í röð.

Nikola Jokić var að venju stigahæstur í liði Nuggets með 29 stig en hann gaf einnig 11 stoðsendingar og tók 8 fráköst. Þar á eftir kom Jamal Murray með 25 stig, 12 stoðsendingar og 8 fráköst. Hjá Trail Blazers var Damian Lillard með 34 stig, 8 stoðsendingar og 7 fráköst.

Luka Dončić vann Houston Rockets með sex stiga mun í nótt, lokatölur 112-106. Luka skoraði 50 af 112 stigum Dallas Mavericks í leiknum, gaf 10 stoðsendingar og tók 8 fráköst.

Indiana Pacers vann mjög svo dramatískan þriggja stiga sigur á Miami Heat, 111-108. Tyrese Haliburton var hreint út sagt magnaður í liði Pacers með 43 stig en hann skoraði sigurkörfu leiksins.

Það gengur hvorki né rekur hjá Anthony Davis-lausu Los Angeles Lakers en liðið tapaði fyrir hörmulegu liði Charlotte Hornets í nótt.

Philadelphia 76ers vann sjöunda leikinn í röð þegar liðið lagði Los Angeles Clippers með fimm stiga mun, lokatölur 119-114. 76ers geta þakkað James Harden og Joel Embiid sem buðu upp á sýningu í nótt. Harden skoraði 20 stig, gaf 21 stoðsendingu og tók 10 fráköst. Embiid skoraði 44 stig.

Önnur úrslit

Orlando Magic 133-113 San Antonio Spurs

Philadelphia 76ers 119-114 LA Clippers

New York Knicks 117-118 Chicago Bulls

Boston Celtics 121-109 Minnesota Timberwolves

Atlanta Hawks 130-105 Detroit Pistons

Cleveland Cavaliers 107-118 Toronto Raptors

Oklahoma City Thunder 125-128 New Orleans Pelicans

Sacramento Kings 111-125 Washington Wizards

Phoenix Suns 100-125 Memphis Grizzlies




Fleiri fréttir

Sjá meira


×