Viðskipti innlent

Verð sérbýla leiðir lækkun íbúðaverðs

Árni Sæberg skrifar
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu fer lækkandi.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu fer lækkandi. Vísir/Vilhelm

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,3 prósent í nóvember frá október. Ástæða lækkunarinnar er 1,2 prósent lækkun verðs sérbýla en verð íbúða í fjölbýli stendur í stað.

Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Lækkunin í nóvember kemur í kjölfar hækkana síðustu tvo mánuði á undan. Lækkun í ágúst síðastliðnum var sú fyrsta frá því í nóvember árið 2019, að því er segir í pistli á vef Íslandsbanka um málið. Þar segir íbúðamarkaður hafi róast að undanförnu.

Í nóvember hafi um 550 kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu verið þinglýst, sem sé svipaður fjöldi og hefur verið undanfarna mánuði, eða frá því að íbúðamarkaðurinn tók að kólna síðasta sumar. Til samanburðar hafi ríflega 700 kaupsamningum verið þinglýst í maí og júní.

„Við spáum því að íbúðamarkaðurinn muni stefna í visst jafnvægi og sigla lygnan sjó á komandi mánuðum. Verð á íbúðamarkaði hefur verið að sveiflast til og það gæti vel farið svo að verðið lækki til skemmri tíma en við teljum að til meðallangs tíma litið muni íbúðaverð þróast í takt við annað verðlag,“ segir í pistlinum.

Spá meiri lækkun verðbólgu

Landsbankinn gerir lækkun íbúðaverðs einnig að viðfangsefni sínu í hagsjánni sem birt var í dag. Þar segir að nýjast mæling Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi áhrif á skammtímaverðbólguspá bankans til lækkunar. Spáin hliðrast um 0,1 prósentustig niður á við.

Því spáir bankinn nú 9,5 prósent verðbólgu í desember í stað 9,6 prósent. Þá lækkar spáin fyrir desember næsta árs úr 7,9 prósent í 7,8 prósent.

Þá segir í hagsjánni að rólegri íbúðamarkaður sé stór þáttur í hjöðnun verðbólgunnar og nýjustu tölur bendi til þess að markaðurinn sé farinn að róast.

Færri kaupsamningar séu alla jafna undirritaðir nú og samkvæmt gögnum HMS seljist nú hlutfallslega færri íbúðir yfir ásettu verði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×