Handbolti

Beitti „Júggabragðinu“ í grannaslagnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hendrik Pekeler gæti verið á leið í bann.
Hendrik Pekeler gæti verið á leið í bann. vísir/epa

Hendrik Pekeler, leikmaður Kiel, beitti sannkölluðu bellibragði í leiknum gegn Flensburg í þýsku úrvalsdeildinni í gær.

Flensburg var miklu sterkari aðilinn í leiknum og vann þrettán marka sigur, 36-23. Þetta er stærsti sigur í leik þessara grannliða í norður-Þýskalandi.

Kappið bar fegurðina ofurliði hjá Pekeler þegar tæpur stundarfjórðungur var til leiksloka.

Í stöðunni 27-18, fyrir Flensburg, slapp sænski leikstjórnandinn Jim Gottfridsson í gegnum vörn Kiel. Pekeler brá þá á það ráð að grípa í fót Svíans sem féll við. Þetta óþverrabragð hefur stundum verið kallað „Júggabragð“ og þykir með verstu brotum á handboltavellinum.

Pekeler fékk að sjálfsögðu rauða spjaldið hjá dómurum leiksins og Flensburg vítakast sem Emil Jakobsen skoraði úr. Eina spurningin er hvort Pekeler fái eitthvað lengra bann fyrir brotið ljóta.

Mikil spenna er á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar en aðeins fimm stig skilja að liðið í 1. og 5. sæti. Kiel er í 2. sæti með 28 stig en Flensburg í því fimmta með 24 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×