Viðskipti erlent

Musk leitar að auknu fjármagni

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Við komu Musk í höfuðstöðvar Twitter.
Við komu Musk í höfuðstöðvar Twitter. AP/Twitter

Auðkýfingurinn Elon Musk leitar nú að fjárfestum til að kaupa hluti í Twitter á sama verði og Musk greiddi sjálfur fyrir fyrirtækið þegar hann varð stærsti hluthafinn með hlutabréfakaupum upp á 44 milljarða dollara.

Wall Street Journal greinir frá fjármagnsleit Musk og hefur eftir hluthafa Twitter að stærri hluthöfum hafi verið boðið að kaupa fleiri hluti í vikunni. 

Musk seldi í vikunni hlutabréf í Teslu að andvirði 3,5 milljarða dollara. Samtals seldi hann um 22 milljón hluti í rafbílafyrirtækinu á þriggja daga tímabili í vikunni til að fjármagna kaupin á Twitter. 

Twitter-yfirtaka Musk hefur vægast sagt farið brösulega af stað. Í síðasta mánuði tilkynnti Musk að Twitter hafi orðið fyrir töluverðum tekjumissi og að félagið væri að tapa um fjórum milljónum dollara á dag. Síðar gaf hann í skyn að samfélagsmiðillinn væri á barmi gjaldþrots. 

Hluthafi segir í samtali við Wall Street Journal að stærri hluthafar lægju nú undir feldi en margir setja spurningamerki við stjórnarhætti Musk. Í síðasta mánuði lýsti Musk því yfir að hann hefði í hyggju að finna annan til að stýra fyrirtækinu. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×