Handbolti

Gísli fór á kostum í sigri gegn toppliðinu | Teitur hafði betur í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur verið algjörlega frábær fyrir Magdeburg undanfarið.
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur verið algjörlega frábær fyrir Magdeburg undanfarið. Andreas Gora/picture alliance via Getty Images

Íslensku landsliðsmennirnir í handbolta voru áberandi þegar fimm leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Gísli Þorgeir Kristjánsson var þar fremstur meðal jafningja þegar hann skoraði tíu mörk fyrir Magdeburg í eins marks sigri gegn toppliði Füchse Berlin, 31-32.

Þeir félagar, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon, hafa verið algjörlega frábærir í liði Þýskalandsmeistara Magdeburg í vetur. Í dag var það Gísli Þorgeir sem átti sviðið, en líklega eru fáir miðjumenn, ef einhverjir, að spila jafn vel og hann um þessar mundir.

Gísli Þorgeir skoraði tíu mörk fyrir Magdeburg í dag úr tólf skotum og var markahæsti maður vallarins. Hann gaf einnig þrjár stoðsendingar á liðsfélaga sína og kom þar með beinum hætti að þrettán mörkum fyrir liðið.

Ómar Ingi átti einnig góðan dag fyrir liðið og skoraði sex mörk, ásamt því að gefa þrjár stoðsendingar.

Magdeburg vann að lokum nauman eins marks sigur, 31-32, og liðið er nú í fjórða sæti þýsku deildarinnar með 23 stig eftir 14 leiki, fjórum stigum minna en Füchse Berlin sem trónir á toppnum. Magdeburg hefur þó leikið tveimur leikjum minna og getur því jafnað toppliðið að stigum með sigrum í þeim leikjum.

Þá unnu Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg öruggan 13 marka sigur er liðið heimsótti Arnór Þór Gunnarsson og félaga í Bergischer, 18-31. Gestirnir í Flensburg leiddu í hálfleik 5-14 og sigur þeirra því í raun aldrei í hættu.

Teitur komst ekki á blað fyrir Flensburg sem situr í fimmta sæti deildarinnar með 22 stig eftir 16 leiki, en Arnór skoraði tvö fyrir Bergischer sem situr í 12. sæti með 12 stig.

Að lokum mátti Íslendingalið Melsungen, með þá Elvar Örn Jónsson og Arnar Frey Arnarsson innanborðs, þola tveggja marka tap gegn Kiel, 24-22, en Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen unnu góðan þriggja marka sigur gegn Göppingen, 36-33.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×