Gengi liðanna hefur ekki verið upp á marga fiska í deildinni undanfarið. Fyrir leikinn í kvöld var Gummersbach án sigurs í seinustu þrem deildarleikjum og Erlangen hafði tapað seinustu fimm.
Það var því mikið undir. Það voru gestirnir í Gummersbach sem tóku frumkvæðið og náðu mest sjö marka forystu í fyrri hálfleik. Liðið leiddi með fjórum mörkum þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 15-19.
Gestirnir héldu forystunni í fimm til sex mörkum allan síðari hálfleikinn og unnu að lokum nokkuð öruggan sex marka sigur, 31-37. Hákon Daði Styrmisson var næst markahæsti leikmaður vallarins með sjö mörk úr jafn mörgum skotum og Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk á línunni.
Með sigrinum lyftir Gummersbach sér upp fyrir Erlangen í töflunni og er nú með 16 stig í áttunda sæti eftir 15 leiki, einu stigi meira en Erlangen sem hefur leikið einum leik meira.