Umfjöllun: Njarðvík - Haukar 88-84 | Haukar endanlega úr leik í bikarnum

Andri Már Eggertsson skrifar
Stjarnan - Njarðvík Subway deild karla 2022-2023
Stjarnan - Njarðvík Subway deild karla 2022-2023 vísir/vilhelm

Njarðvík vann Hauka 88-84 í margfrestuðum leik. Leikurinn var í járnum en sóknarleikur Hauka hrundi í lok fjórða leikhluta og Njarðvík gekk á lagið. Njarðvík mætir grönnum sínum í Keflavík í átta liða úrslitum.

Fyrsti leikhluti var afar tvískiptur. Eftir að Njarðvík gerði fyrstu körfuna í leiknum svöruðu Haukar með því að gera átta stig í röð og voru ofan á lengst af í fyrsta leikhluta. Í stöðunni 15-23 datt Njarðvík í gang og gerði níu stig í röð. Maciek Stanislav Baginski endaði síðan síðustu sókn Njarðvíkur á þriggja stiga körfu og eftir fyrsta leikhluta var staðan jöfn 27-27.

Annar leikhluti byrjaði ekki af sama krafti og fyrsti endaði. Bæði lið treystu mikið á byrjunarliðið sitt í fyrri hálfleik og var Breki Gylfason eini varamaðurinn sem kom stigi á töfluna. Breka tókst að hitta úr einu af tveimur vítum en aðrir varamenn úr báðum liðum gerðu ekki stig í fyrri hálfleik.

Undir lok fyrri hálfleiks gerði Njarðvík fimm stig í sömu sókninni. Mario setti niður þriggja stiga körfu og Lisandro Rasio fékk síðan tvö vítaskot þar sem Breki Gylfason braut á honum. Lisandro hitti úr báðum vítunum og kom Njarðvík yfir 50-49.

Njarðvík var einu stigi yfir í hálfleik 52-51.

Liðin byrjuðu á að skiptast á körfum í seinni hálfleik. Það var afar skemmtilegt að fylgjast með Darwin Davis og Dedrick Basile sem fóru nánast í einn á einn á köflum. Haukar náðu síðan öflugu áhlaupi um miðjan þriðja leikhluta þar sem gestirnir gerðu sjö stig í röð.

Haukar gerðu síðustu fimm stigin í þriðja leikhluta og voru einu stigi yfir 72-73 þegar haldið var í síðustu lotu.

Haukar byrjuðu fjórða leikhluta betur og hótuðu að klára leikinn þegar þeir komust sex stigum yfir 78-84. Logi Gunnarsson, fyrirliði Njarðvíkur, setti síðan niður þrist og þá breyttist allt. Sóknarleikur Hauka hrundi og Njarðvík gerði síðustu tíu stigin í leiknum. Njarðvík vann á endanum fjögurra stiga sigur 88-84. 

Af hverju vann Njarðvík?

Njarðvík var sterkari á svellinu í fjórða leikhluta. Varnarleikur Njarðvíkur var frábær þar sem Haukar náðu ekki að gera stig á síðustu fjórum mínútum leiksins. 

Njarðvík langaði hins vegar í framlengingu þar sem heimamenn hittu aðeins úr einu af sex vítum þegar Haukar brutu á þeim en gestirnir refsuðu ekki fyrir þessi mistök og Njarðvík tryggði sér sæti í átta liða úrslitum.

Hverjir stóðu upp úr

Lisandro Rasio var stigahæstur hjá Njarðvík með 20 stig. Hann tók einnig ellefu fráköst og endaði með 28 framlagspunkta.

Dedrick Deon Basile var ekki langt frá þrefaldri tvennu. Hann gerði 17 stig, tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Sex stigum yfir fraus sóknarleikur Hauka í brakinu. Haukar töpuðu síðustu fjórum mínútum 10-0 og var pínlegt að horfa upp á sóknarleik Hauka þegar allt var undir. 

Hvað gerist næst?

Haukar mæta Stjörnunni í Umhyggju-höllinni næsta fimmtudag klukkan 20:15. Á föstudaginn mætast Njarðvík og KR í Ljónagryfjunni klukkan 20:15.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira