Umfjöllun: PAUC - Valur 32-29 | Stöngin út hjá Val í Frakklandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stiven Tobar Valencia skoraði sex mörk gegn PAUC.
Stiven Tobar Valencia skoraði sex mörk gegn PAUC. vísir/vilhelm

Eftir frábæra frammistöðu lengst af varð Valur að játa sig sigraðan gegn PAUC, 32-29, í B-riðli Evrópudeildarinnar í handbolta karla í kvöld. Þetta var annað tap Valsmanna í Evrópudeildinni í röð en þriðji sigur Frakkanna í röð. Kristján Örn Kristjánsson lék ekki með PAUC í kvöld vegna meiðsla.

Valsmenn voru með frumkvæðið framan af seinni hálfleik og komust fjórum mörkum yfir, 20-24, þegar sautján mínútur voru eftir. Þá seig á ógæfuhliðina, PAUC svaraði með 5-1 kafla og jafnaði í 25-25.

Arnór Snær Óskarsson kom Val í 26-27 með marki úr vítakasti en eftir það voru Íslands- og bikarmeisturunum allar bjargir bannaðar. Klaufagangur í sókninni í bland við hreina og klára óheppni í nokkrum skotum hleyptu heimamönnum fram úr. Þeir skoruðu fjögur mörk í röð og náðu þriggja marka forskoti, 30-27, þegar þrjár mínútur voru eftir. Sami munur var á liðunum í leikslok, 32-29.

Arnór Snær og Stiven Tobar Valencia skoruðu sex mörk hvor fyrir Val. Björgvin Páll Gústavsson varði þrettán skot (29 prósent), flest í fyrri hálfleik.

Gabriel Loesch, hægri hornamaður PAUC, var besti maður vallarins og skoraði tíu mörk. Romain Lagarde var með sex og Alejandro Romero Carreras varði jafnt og þétt allan leikinn, alls nítján skot (fjörutíu prósent).

Tapið svíður eflaust fyrir Valsmenn sem voru frábærir í fimmtíu mínútur eða svo. En á endanum sagði styrkur Frakkanna til sín. Valur var eftir allt saman að spila við bronsliðið í einni sterkustu deild heims. En þetta var jafn leikur allan tímann sem segir sitt um hversu langt Valsliðið er komið undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar.

Lukkan var ekki í liði með Magnúsi Óla Magnússyni í kvöld.vísir/vilhelm

Björgvin Páll var í miklum ham í upphafi leiks og varði sex af fyrstu tíu skotum PAUC sem rötuðu á markið. Valur nýtti sér það og komst í 2-5.

Eftir þessa góða byrjun fóru Valsmenn að bulla í sókninni og Frakkarnir nýttu sér það, skoruðu fjögur mörk í röð og náðu forystunni, 6-5.

Vont varð verra því PAUC skoraði fjögur mörk í röð og náði 12-8 forystu. Ekkert gekk upp hjá Val á þessum kafla og PAUC gerði sig líklegt til að stinga af.

En Valsmenn gáfust ekki upp, Björgvin Páll hrökk aftur í gang og betri taktur kom í Valssóknina. Íslands- og bikarmeistararnir skoruðu fimm mörk í röð og náðu forystunni, 12-13.

PAUC jafnaði í tvígang en Vignir Stefánsson skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og Valur fór með nauma forystu til búningsklefa, 14-15.

Valsmenn voru áfram með frumkvæðið framan af seinni hálfleik. Vörnin var nokkuð sterk en markvarslan í seinni hálfleik var nánast engin.

Þorgils Jón Svölu Baldursson lék vel, bæði í vörn og sókn.vísir/vilhelm

Katarski línumaðurinn Youssef Ben Ali jafnaði í 20-20 en þá kom frábær kafli hjá Val. Þeir skoruðu fjögur mörk í röð, þar af þrjú úr hraðaupphlaupum, og náðu 20-24 forystu.

Hún fuðraði hins vegar óþægilega hratt upp og sex mínútum síðar var staðan orðin jöfn, 25-25.

Lokakaflinn reyndist Valsmönnum svo erfiður. Þeir töpuðu boltanum tvisvar klaufalega og Magnús Óli Magnússon átti svo tvö skot í stöng. Hann átti ekki sinn besta leik og klikkaði á sex af níu skotum sínum. Benedikt Gunnar Óskarsson fann sig heldur ekki í skotunum og þurfti sex slík til að skora mörkin sín tvö.

Valur rétti PAUC litla fingur og Frakkarnir gripu höndina. Þeir skoruðu fjögur mörk í röð og náðu forystu sem nánast ómögulegt var að vinna upp á þeim skamma tíma sem var eftir.

Á endanum munaði þremur mörkum á liðunum, 32-29. Sigurinn var of stór miðað við gang leiksins og frammistöðu Valsmanna en þeir geta gengið hnarreistir frá borði.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.