Viðskipti innlent

Færeyska skipaútgerðin með átján starfsmenn í Þorlákshöfn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hákon Hjartarson er svæðisstjóri Smyril Line í Þorlákshöfn.
Hákon Hjartarson er svæðisstjóri Smyril Line í Þorlákshöfn. Arnar Halldórsson

Færeyska skipaútgerðin Smyril Line er komin með átján starfsmenn í Þorlákshöfn. Þar segja menn að lesa megi æðaslátt efnahagslífsins úr flutningunum. Ráðmenn sveitarfélagsins vonast til að það styttist í farþegaferju til Evrópu.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá skip Smyril Line, Akranes, sigla inn í Þorlákshöfn. Þegar við sjáum gröfurnar koma frá borði veltum við því upp hvort hér sé ekki ágætis mælikvarði á gang efnahagsmála.

„Jú, jú. Það er hægt að finna svona línu í gegn. Það er hægt að sjá svona hvernig efnahagslífið er að ganga,“ segir Hákon Hjartarson, svæðisstjóri Smyril Line í Þorlákshöfn.

Skip Smyril Line, Akranes, að leggjast að bryggju í Þorlákshöfn.Arnar Halldórsson

Fjölda hjólhýsa má sjá í portunum en Hákon áætlar að 200-300 slík komi til landsins á ári.

En svo er það líka það sem skaffar gjaldeyrinn á móti en það er einkum fiskur sem fer út með skipum Smyril Line, bæði ferskur fiskur og lax, segir Hákon.

Og þessu fylgir mikil vinna.

„Þetta eru orðin átján störf, bara hjá Smyril Line. Svo er allt sem er tengt þessu, sem er hellingur líka. Þannig að þetta hefur breytt helling fyrir þorpið.“

Og flestir starfsmenn eru heimamenn, uppaldir í þorpinu, fyrir utan einn strák frá Póllandi, segir svæðsstjóri Smyril Line.

Benjamín Ómar Þorvaldsson, settur hafnarstjóri í Þorlákshöfn.Arnar Halldórsson

Höfnin þarf einnig fleiri starfsmenn. Benjamín Ómar Þorvaldsson, settur hafnarstjóri, segir að starfsmenn hafnarinnar séu orðnir átta talsins, þar af séu þrír í því að vakta svæðið.

Bæjarstjórinn Elliði Vignisson sér Þorlákshöfn verða nýja farþegagátt inn í landið.

Elliði Vignisson er bæjarstjóri Ölfuss.Arnar Halldórsson

„Okkar vonir og væntingar standa til þess að innan ekki margra ára verði byrjað á farþegasiglingum á svona skipi sem svipar til Norrænu. Það verður í fyrsta skipti í langan tíma sem reyndir verða farþegaflutningar frá Evrópu og hingað á suðvesturhornið,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.

Einnig var fjallað um siglingar Smyril Line til Þorlákshafnar í þættinum Um land allt, sem nálgast má á streymisveitunni Stöð 2+.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


×