Handbolti

Ómar og Gísli fóru á kostum í sigri Magdeburg | Haukur skoraði sex í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skoraði tíu mörk fyrir Magdeburg í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skoraði tíu mörk fyrir Magdeburg í kvöld. Frederic Scheidemann/Getty Images

Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson komu með beinum hætti að 19 af mörkum Magdeburg er liðið vann öruggan fimm marka sigur gegn Porto í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld, 41-36.

Ómar Ingi var markahæsti maður vallarins með tíu mörk fyrir þýsku meistarana, ásamt því að leggja upp eitt. Þá skoraði Gísli Þorgeir fimm fyrir liðið og lagði upp önnur þrjú.

Magdeburg hafði fimm marka forskot í hálfleik og hélt því út allan leikinn. Lokatölur 41-36 og Magdeburg er nú í þriðja sæti A-riðils með níu stig eftir sjö leiki, en Porto er enn án stiga á botninum.

Fyrr í kvöld var Bjarki Már Elísson í liði Veszprém er liðið vann fjögurra marka sigur gegn Zagreb í sama riðli, 32-28. Bjarki komst ekki á blað fyrir ungverska liðið, en Veszprém trónir á toppi A-riðils með 13 stig.

Þá átti Haukur Þrastarson góðan leik fyrir pólska stórliðið Kielce sem vann fjögurra marka sigur gegn Orra Frey Þorkelssyni og félögum hans í norska liðinu Elverum, 37-33.

Haukur skoraði sex mörk fyrir Kielce, en Orri þrjú fyrir Norðmennina. Kielce situr í öðru sæti B-riðils með 12 stig, en Elverum er á botninum með aðeins tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×