Handbolti

Stjarnan, Haukar, HK og Selfoss í átta liða úrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði níu mörk fyrir Hauka í kvöld.
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði níu mörk fyrir Hauka í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Fjórir leikir fóru fram í fyrstu umferð bikarkeppni HSÍ í kvennahandboltanum í kvöld þar sem Stjarnan, Haukar, HK og Selfoss tryggði sér sæti í átta liða úrslitum.

Enginn af leikjunum fjórum var Olís-deildarslagur og því mætti segja að allt hafi farið eftir bókinni þar sem öll fjögur liðin sem fóru áfram spila í Olís-deildinni, en liðin sem féllu úr leik leika í Grill66-deildinni.

HK-ingar þurftu þó að hafa sig alla við er liðið vann tveggja marka sigur gegn ÍR í Skógarselinu, 25-27.

Hinir þrír sigrarnir voru heldur öruggari þar sem Stjarnan vann fimm marka sigur gegn Aftureldingu, 23-28, Haukar unnu níu marka sigur gegn Gróttu, 22-31, og Selfoss vann 13 marka sigur gegn FH, 17-30.

Fyrstu umferðinni lýkur svo á morgun með tveimur leikjum þegar Víkingur tekur á móti Fjölni/Fylki og ÍBV tekur á móti KA/Þór í Olís-deildarslag umferðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×