Skoðun

Á­kall til bæjar­full­trúa um hóf­semi!

Eiður Stefánsson skrifar

Hart er lagt að verkalýðshreyfingunni að gæta hófsemi í launakröfum í yfirstandandi kjaraviðræðum, stefið er að of háar kröfur myndu hleypa verðbólgunni upp. Það gleymist hisvegar að það sem af er ári hafa heimilin sýnt gríðarlegan sveigjanleika til að mæta verðhækkunum á mat, eldsneyti og öðrum aðföngum í skugga stríðs og heimsfaraldurs. Þá er ótalin hækkun stýrivaxta með tilheyrandi áhrifum á lánaafborganir og leigugreiðslur.

Krafan þarf að ná til allra

Verkalýðshreyfingin byggir á samtakamætti og í krafti fjöldans höfum við náð fram kjarabótum og réttindum sem í dag teljast sjálfsögð. Þegar illa árar í samfélaginu, eða líkt og nú á heimsvísu, er eðlilegt að gera kröfu á hófsemi, en sú krafa þarf að ná til allra. Þar ættu að sitja jafnt til borðs, verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur, ríki og sveitarfélög.

Fréttir af hækkun gjaldskrár Akureyrarbæjar um 7-10% verða að teljast allt annað en hófsamar og virka sem eldsneyti á verðbólgubálið. Hækkunin heggur þar sem nú þegar er mikið af tekið, á heimilum fjölskyldufólks. Þar vega einna hæst hækkanir á fasteignagjöldum, en húsnæðiskostnaður heimilana hefur þegar rokið upp úr öllu valdi sökum verðbólgu. Þolmörkum heimilana er ógnað og þau geta ekki meira. Því er óvægið af hálfu fulltrúa í bæjarstjórn að hækka gjaldskrár í stað þess að taka á rekstrarvanda Akureyrarbæjar innanfrá. Eina úrræði bæjarbúa til að mæta slíkum hækkunum er að krefjast hærri launa.

Mætumst á miðri leið

Við samningaborðið er eðlilegt að gera málamiðlanir, sumt fæst í gegn og annað ekki, en á endanum verður samkomulag og sátt sem allir una við. Verkalýðshreyfingin getur ekki mætt að borðinu með hófsemi ef það sama gengur ekki yfir alla, við verðum að mætast á miðri leið og beita sameiginlegum samtakamætti til að rétta úr kútnum.

Höfundur er formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×