Handbolti

Carlos: Við þurfum að skilja að við erum litla liðið

Jón Már Ferro skrifar
Carlos Martin Santin er þjálfari Harðar.
Carlos Martin Santin er þjálfari Harðar.

Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar, var ánægður eftir leik þeirra við FH í Olís-deildinni þrátt fyrir 36–31 tap. Fyrir leik bjuggust flestir við stórsigri heimamanna en gestirnir seldu sig mjög dýrt. Þrátt fyrir það var sigur FH-inga aldrei í hættu.

Að mati Carlosar var leikurinn skemmtilegur fyrir áhorfendur. Mestan hluta leiks var eins og FH-ingar væru að bíða eftir að leikurinn væri búinn en Harðverjar reyndu og reyndu en gæðin voru ekki næg hjá gestunum.

„Frábær leikur fyrir áhorfendur. Þetta var hraður leikur og mikið af mörkum. Eitthvað um misstök eðlilega, þetta var flott fyrir áhorfendur en kannski ekki fyrir okkur.“

Oft á tíðum voru ákvarðanir Harðverja hræðilegar þrátt fyrir góðar stöður sóknarlega. Ef FH tapaði boltanum gerðu Harðverjar það oftar en ekki í hraðaupplaupinu í kjölfarið.

„Við þurfum að bæta ákvarðanatökur. Oft í leiknum tókum við ekki réttar ákvarðanir. Það varð okkur að falli. Við lendum undir, komum til baka, lendum undir og komum aftur til baka. Þegar við vorum að koma til baka vorum við að fá tveggja mínútna brottvísanir sem gerðu út af við okkur. Við spiluðum vel, hefði getað verið betra en hamingjuóskir til FH. Þeir spiluðu vel en við þurfum að bæta okkur. Við erum með marga unga leikmenn og þeir verða að skilja hvernig þeir eiga að spila.“

Hörður var tvisvar í leiknum tveimur mönnum fleiri inni á vellinum en nýttu það einstaklega illa. Þeir köstuðu boltanum til FH-inga trekk í trekk og voru sjálfum sér verstir.

„Þeir létu þetta líta út fyrir að vera auðvelt og það var allt erfiðara fyrir okkur. Við þurfum að bæta hjá okkur spilamennskuna. Vonandi gerist það á sunnudaginn á móti Fram. Við þurfum að horfa aftur á leikinn og læra af mistökunum. Vonandi náum við í okkar fyrstu tvö stig á sunnudag. Við þurfum að vaxa mikið, því við erum nýtt lið í þessari deild. Það er fullt af góðum leikmönnum og mikið af stórum liðum. Við þurfum að skilja að við erum litla liðið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×