Innherji

Guðlaugur vildi verða fjármálaráðherra gegn því að falla frá framboði

Hörður Ægisson skrifar
Guðlaugur Þór tilkynnti í gær að hann ætlaði í formannsslag við Bjarna Benediktsson. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er sá fyrsti sem flokkurinn heldur frá því í mars árið 2018. 
Guðlaugur Þór tilkynnti í gær að hann ætlaði í formannsslag við Bjarna Benediktsson. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er sá fyrsti sem flokkurinn heldur frá því í mars árið 2018.  Vísir/Vilhelm

Guðlaugur Þór Þórðarson, orku- og loftlagsráðherra, var reiðubúinn að falla frá áformum sínum um að bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins gegn því að Bjarni Benediktsson, núverandi formaður flokksins, myndi eftirláta honum að taka við sem fjármála- og efnahagsráðherra.

Þetta var á meðal þess sem kom fram á fundum sem Bjarni og Guðlaugur Þór áttu síðasta fimmtudag og föstudag, samkvæmt heimildum Innherja, þar sem rætt var um hvernig slíðra mætti sverðin fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins um næstkomandi helgi. Slíkum tillögum um breytingar á ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn var hins vegar hafnað af Bjarna og á sunnudaginn eftir tilkynnti Guðlaugur Þór um þá ákvörðun sína að gefa kost á sér í embætti formanns flokksins.

Bjarni, sem hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá 2009 og fjármálaráðherra nánast samfellt frá 2013, staðfestir í samtali við Innherja að þeir Guðlaugur Þór hafi hist til að ræða þá stöðu sem upp hefði verið komin en segist að öðru leyti ekki geta tjáð sig um það fór fram á fundunum.

Ekki náðist í Guðlaug Þór við vinnslu fréttarinnar.

Hann hefur verið umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra frá því að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og VG endurnýjuðu stjórnarsamstarf sitt á síðasta ári. Þar áður gegndi Guðlaugur Þór embætti utanríkisráðherra.

Guðlaugur Þór tilkynnti um framboð sitt til formanns Sjálfstæðisflokksins í ræðu sem hann flutti klukkan 13 í gær í Valhöll þar sem mikill fjöldi stuðningsmanna hans var samankominn. Þar lagði hann áherslu á það að án sinna stuðningsmanna væri hann ekki neitt og að án fólksins í flokknum væri Sjálfstæðisflokkurinn ekki neitt.

Þá sagði hann fólkið í salnum vita hvernig staðan í Sjálfstæðisflokknum væri. Flokkurinn væri lengi búinn að vera að vinna varnarsigra og nú þyrfti að snúa vörn í sókn.

„Þegar maður fær bréf frá Valhöll sem segir: „Þetta er allt í lagi, við erum enn stærsti flokkurinn,“ þá brá mér,“ sagði Guðlaugur Þór. „Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að vera stærsti flokkurinn. Hann á alltaf að vera langstærsti flokkurinn.“

Bjarni hefur gefið það út að tapi hann formannskjörinu á landsfundinum þá sé tíma hans í íslenskum stjórnmálum lokið.

„Ég ætla ekkert að draga fjöður yfir það. Ef að mínum tíma sem formanni líkur í þessu kjöri, þá er mínum tíma í stjórnmálum bara lokið. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Bjarni í viðtali í Sprengisandi í gær.

Þá nefndi Bjarni einnig að hann hefði rætt nokkrum sinnum við Guðlaug á undanförnum dögum. Í þeim samtölum hafi hann ekki upplifað neina gagnrýni sem tengist málefnalegum áherslum Sjálfstæðisflokksins.

„Ég myndi geta skilið það mjög vel, ef menn hefðu sagt: „Heyrðu, við erum bara á rangri braut. Við þurfum að breyta um stefnu. Við þurfum að einbeita okkur að málaflokkum sem hafa verið skildir út undan,“ en það er alls ekki heldur varðar þetta fyrst og fremst, eins og ég er að upplifa það, það hvernig flokkurinn starfar og hvernig innra starf flokksins fer fram og aðrir slíkir þættir. Jafnvel verkaskipting milli fólks,“ sagði Bjarni.

Eftir að Guðlaugur Þór greindi frá framboði sínu til formanns, sem hefur legið í loftinu undanfarna daga, hefur hann sagst ekki hafa leitt hugann að því hvaða áhrif það hefði á stöðu hans í ríkisstjórninni ef hann tapar kosningunum. Þá hefur Guðlaugur Þór gefið lítið fyrir fullyrðingar Bjarna um að ríkisstjórnarsamstarfið kunni að vera í hættu ef hann missir formannsstólinn. „Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem er í ríkisstjórn, síðast þegar ég vissi,“ sagði Guðlaugur.

Sjálfur hefur Bjarni sagt það vera ástæðulausar vangaveltur á þessu stigi að efast um stöðu Guðlaugs Þórs sem einn ráðherra ríkisstjórnarinnar ef hann verður undir í formannsslagnum. Það sé eðlilegt að oddviti flokksins í Reykjavík hafi sterka rödd við ríkisstjórnarborðið.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er sá fyrsti sem flokkurinn heldur frá því í mars árið 2018. Liðlega tvö þúsund landsfundarfulltrúar, sem koma víða að á landinu öllu, sækja fundinn og hafa kosningarétt í kjöri til formanns.

Fréttin var uppfærð kl. 15:25. 


Tengdar fréttir

Gulli plús Kata talið ganga illa upp

Framboð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins teflir ríkisstjórnarsamstarfinu í tvísýnu að mati stjórnarþingmanna. Þeir óttast margir að líftími ríkisstjórnarinnar verði talinn í vikum nái Guðlaugur Þór kjöri. 

Fram­boð Guð­laugs krókur á móti bragði

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, telur að hægt sé að tengja framboð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar við orðróm um að ráðherrastóll hans væri í hættu. Hann segir að erfitt sé að spá fyrir um úrslit kosninganna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×