„Það er alltaf geggjað gaman að vinna og sérstaklega fyrir fullu húsi hér á Íslandi, ótrúleg tilfinning að taka þátt í þessu,“ sagði Elliði Snær og bætti við að honum þætti fínt að spila á Ásvöllum sem hefur verið heimavöllur landsliðsins á meðan Laugardalshöllin er óleikfær.
„Mér finnst alltaf gaman að spila hérna, hvort sem það hefur verið með ÍBV eða landsliðinu. Það er búið að vera rífandi stemmning og bara ótrúlega gaman.“
Elliði var að mestu leyti ánægður með varnarleik íslenska liðsins gegn Ísrael.
„Við vorum í smá veseni í byrjun en Bjöggi var ótrúlega góður á þeim kafla og við náðum forskotinu á því. Svo náðum við aðeins að stilla okkur saman þegar leið á leikinn. Það er nýr þjálfari hjá þeim og erfitt að átta sig á hvað þeir ætluðu að gera í upphafi. Við vorum að skoða klippur frá því fyrir tveimur eða þremur árum þannig að við vorum svolítið að geta í eyðurnar. Við náðum að loka alveg í seinni hálfleik.“

Elliði sagði ánægjulegt að sjá hvernig leikmenn koma inn í liðið í stað þeirra lykilmanna sem voru frá.
„Svona er þetta lið. Við erum með valinn mann í hverri stöðu og ef það vantar leikmenn, það vantar tvo bestu leikmennina í liðinu, en við vinnum samt með fimmtán. Það er ótrúlega jákvætt.“
Það sést alltaf þegar Elliði Snær spilar að hann hefur gríðarlega gaman af því að vera inni á vellinum og smitar út frá sér til áhorfenda og annara leikmanna.
„Það er ekkert mál að gíra sig þegar maður spilar fyrir Ísland. Maður kemur bara á æfingu og það er mikil samkeppni í liðinu, mikil gleði og samstaða í hópnum. Það er ótrúlega gaman að vera hérna og maður bara nýtur þess í botn.“