Klinkið

Ætlar Orku­veita Reykja­víkur að skila auðu í orku­skiptunum?

Ritstjórn Innherja skrifar
Uppi eru háleit markmið um orkuskipti á Íslandi. Orkuveita Reykjavíkur hyggst ekki taka þátt í því verkefni.
Uppi eru háleit markmið um orkuskipti á Íslandi. Orkuveita Reykjavíkur hyggst ekki taka þátt í því verkefni.

Rauði þráðurinn í stefnumótun stjórnvalda hér á landi sem erlendis eru orkuskiptin. Í þeim felst einna helst að skipta kolefnisorkugjöfum fyrir umhverfisvænari orkugjafa. Óraunhæft er að láta af notkun kolefnisorkugjafa víðast hvar um heim til skemmri tíma eða lengri tíma litið. Þeir eru einfaldlega of veigamiklir. Fyrsta markmiðið ætti alltaf að vera að draga úr vexti notkunar þeirra og auka hlutfall endurnýjanlegra og umhverfisvænna orkugjafa.

Á Íslandi er hins vegar einstakt tækifæri – sem varla fyrirfinnst annars staðar – til að keyra hagkerfið nánast eingöngu á hreinum orkugjöfum. Ríkisstjórn Íslands, sveitarfélög og atvinnulífið hafa sett sér metnaðarfull markmið í þeim efnum.

Áætlanir gera ráð fyrir að líklegast þurfi auka þurfi rafmagnsframleiðslu um meira en 100 prósent hér á landi á næstu áratugum, svo full orkuskipti náist. 

Þær áætlanir eru auðvitað lagðar fram með öllum hefðbundnum fyrirvörum. Rafknúnar flugvélar og skip eru ekki orðin fýsileg ennþá og vandi að spá um hvenær það verður raunin. 

Það er því holur hljómur í svonefndu Grænu plani meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur ef stærsta tækifæri borgarinnar í umhverfismálum verður ekki nýtt.

Þó ber að hafa hugfast að mannskepnunni hættir til að ofmeta hraða tækniframfara til skemmri tíma, en vanmeta þær til lengri tíma.

Í ljósi þessa alls sætir furðu að Orka Náttúrunnar, eitt dótturfélaga Orkuveitu Reykjavíkur og næststærsti raforkuframleiðandi landsins, hafi engar áætlanir um að auka raforkuframleiðslu, líkt og kom fram í máli framkvæmdastjóra fyrirtækisins í vikunni.

Fjárhagur Orkuveitunnar hefur styrkst mjög á undanförnum árum. Því getur takmörkuð fjárfestingageta ekki verið ástæðan fyrir þessari afstöðu félagsins. Skortur á eftirspurn eftir raforku getur ekki verið ástæðan heldur, af ofangreindum ástæðum. Skortur á þekkingu starfsfólks getur ekki verið ástæðan, en Orkuveitan og dótturfélög tilkynna um ráðningar á þaulreyndum sérfræðingum hvað eftir annað. Fyrirtækið er yfirfullt af þekkingu og reynslu við nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu. 

Ástæðan getur því varla verið önnur en vilji eigandans. Stærsti eigandi Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, stendur höllum fæti fjárhagslega og hefur gert ráð fyrir tugmilljarða arðgreiðslum út úr Orkuveitunni á næstu fimm árum svo að endar nái saman í rekstri borgarinnar. 

Það er því holur hljómur í svonefndu Grænu plani meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur ef stærsta tækifæri borgarinnar í umhverfismálum verður ekki nýtt. Það er að segja: Orkuveita Reykjavíkur blási til sóknar í hreinni raforkuframleiðslu og leggi sinn eðlilega skerf til hins mikilvæga verkefnis sem orkuskiptin eru.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×