Handbolti

„Þær eru bara að fara að keppa við Val um titilinn“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stjarnan hefur farið vel af stað í vetur.
Stjarnan hefur farið vel af stað í vetur. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan er til alls líkleg í Olís-deild kvenna í handbolta í vetur samkvæmt sérfræðingum Seinni bylgjunnar. Liðið er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki.

Stjarnan vann níu marka sigur, 29-18, á KA/Þór í síðustu umferð og leit mjög vel út. Liðið er nú með þrjá sigra í jafnmörgum leikjum og er því jafnt Val á toppi deildarinnar með fullt hús.

„Þær eru bara að fara að keppa við Val um titilinn,“ segir Einar Jónsson um Stjörnuliðið í Seinni bylgjunni.

„Ég er sammála því. Þær vinna Fram í fyrsta leik þegar Framliðið var auðvitað svolítið laskað og það vantaði inn sterka pósta og útlendingarnir ekki komnir. En spilamennskan þar sýndi manni samt úr hverju liðið er gert. Það verður alvöru prófraun fyrir þær á móti Val í þarnæstu umferð,“ segir Árni Stefán Guðjónsson.

Klippa: Seinni bylgjan: Stjarnan

Einar segir þá batamerki á varnarleik liðsins og það sé gott að sjá að einhver hugmyndafræði sé að baki honum.

„Svo er eins og með varnarleikinn hjá þeim. Það er einhver hugmyndafræði að verki, þær vita hvað þær eiga að vera gera. Svo gera þær einhver mistök inni í því en það er allavega eitthvað frétta hjá þeim og þetta lítur mjög vel út. Þeim eru allir vegir færir að mínu mati,“ segir Einar.

„Stjarnan er orðin ásamt Val bara liðið til að vinna (e. team to beat) ef maður má sletta,“ segir Árni.

Fleira kemur fram í umræðunni um Stjörnuliðið sem má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×