Viðskipti innlent

Sama hleðslu­tengi á alla síma fyrir 2024

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Spjaldtölvur og minni raftæki falla einnig undir breytingarnar.
Spjaldtölvur og minni raftæki falla einnig undir breytingarnar. Getty

Evrópuþingið samþykkti í dag að skylda raftækjaframleiðendur til að hafa einu og sömu tegundina af hleðslutengi fyrir árið 2024. Tengið sem varð fyrir valinu er fyrir svokallaðar USB-C snúrur. Ákvörðun þingsins er sögð vera högg fyrir raftækjaframleiðandann Apple.

Meira en áratugur er liðinn frá því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins byrjaði fyrst að leggja áherslu á að aðeins ein tegund af hleðslutengjum væri fyrir snjalltæki. Samkomulag milli Evrópusambandsins og Evrópuþingsins náðist í sumar og var síðan samþykkt af 602 þingmönnum þingsins í dag. Aðeins 13 greiddu atkvæði á móti.

Flestir símar með Android stýrikerfinu, til að mynda Samsung Galaxy sem er helsti keppinautur iPhone-síma Apple, hafa tengi fyrir USB-C. Apple tæki hafa hins vegar svonefnd Lightning-tengi. Samkvæmt tölum ESB voru 29% snjallsíma sem voru seldir árið 2018 með USB-C-tengi, 21% með Lightning-tengi og helmingurinn með eldra USB-B-tengi.

Eins og fyrr segir eru breytingarnar taldar hafa mestu áhrifin á Apple og hefur fyrirtækið áður sagt að samræming á hleðslutækjum eða hleðslusnúrum yrði Þrándur í götu nýsköpunar. Raftæki á borð við spjaldtölvur og heyrnartól falla hins vegar einnig undir fyrirhugaðar breytingar, og gætu breytingarnar því haft áhrif á marga raftækjaframleiðendur.

Evrópuþingið grípur til aðgerðanna vegna umhverfissjónarmiða og þá er einnig talið að neytendur muni spara um 250 milljónir evra sökum breytinganna. Guardian greinir frá.


Tengdar fréttir

Apple þarf að breyta hleðslutengjum fyrir 2024

Evrópusambandið og Evrópuþingið hafa náð samkomulagi um að snjalltæki þurfi að hafa einu og sömu tegundina af hleðslutengi fyrir árið 2024. Samkomulagið þýðir að tæknirisinn Apple þarf að breyta hleðslutengjum í snjalltækjum sínum í Evrópu.

Kynna reglur um stöðluð hleðslutengi fyrir snjallsíma

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti frumvarp að lögum sem myndu skikka framleiðendur snjallsíma til að nota staðlað hleðslutengi fyrir þá. Tæknirisinn Apple hefur þráast við að nota sömu tengi og samkeppnisaðilar hans.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×