Umræðan

Verðbólguskuldakreppa er hafin

Nouriel Roubini skrifar

Í meira en eitt ár hef ég haldið því fram að aukin verðbólga á heimsvísu yrði þrálát. Orsakir hennar hennar eru ekki aðeins slæmar ákvarðanir stjórnmálamanna heldur líka framboðsskellir. Að auki munu aðgerðir seðlabanka heimsins í baráttunni við verðbólguna orsaka harða lendingu hagkerfisins. Ég varaði við því að þegar kreppan hefst formlega, mun hún verða djúp og vara lengi með víðtækum fjármálaóstöðugleika og skuldakreppum. Þrátt fyrir haukatal seðlabanka, fastir í viðjum skuldagildru, er líklegt að þeir muni gefa eftir og sætta sig við verðbólgu yfir markmiði. Öll eignasöfn sem innihalda hvort sem er áhættusöm hlutabréf eða áhættuminni skuldabréf munu lækka vegna meiri verðbólgu og hærri verðbólguvæntinga.

Hvað þýðir þetta samandregið? Í fyrsta lagi höfðu þeir rangt fyrir sér sem sögðu að verðbólgan væri aðeins tímabundin og myndi ganga yfir á skömmum tíma. Til viðbótar við lausatök í peninga- og ríkisfjármálum þá orsökuðu neikvæðir framboðsskellir hraða hækkun verðlags á skömmum tíma. Heimsfaraldurinn leiddi til flöskuhálsa í birgðakeðjum – þar er framboð vinnuafls meðtalið. Hörð stefna Kína í baráttunni við faraldurinn (e. zero-covid) skapaði frekari vandamál í birgðakeðjum á heimsvísu. Innrás Rússlands í Úkraínu sendi höggbylgju á orku- og hrávörumarkaði. Viðskiptaþvinganir – þar með talin styrking Bandaríkjadals – hefur þau áhrif að hagkerfi heimsins skiptist upp í hólf og hnattvæðingarferlið gengur til baka.

Þrátt fyrir haukatal seðlabanka, fastir í viðjum skuldagildru, er líklegt að þeir muni gefa eftir og sætta sig við verðbólgu yfir markmiði.

Allir sjá að neikvæðir framboðsskellir hafa haft áhrif á verðbólgu og allir stærstu seðlabankar heims viðurkenna nú að erfitt verður að ná mjúkri lendingu. Seðlabankastjóri Bandaríkjanna talar nú um „tiltölulega mjúka lendingu“ sem mun hafa í för með sér „einhvers konar sársauka.“ Á meðan er hörð lending það sem hagfræðingar, fjárfestingar og greinendur tala um.

Það er strembið er að ná mjúkri lendingu í miðjum, neikvæðum framboðsskelli þegar verðbólgukreppa er alltumlykjandi – samanborið við þær aðstæður þegar hagkerfið er að ofhitna vegna eftirspurnar. Frá seinna stríði hefur Seðlabanki Bandaríkjanna aldrei náð mjúkri lendingu eftir að verðbólga fer yfir 5 prósent (hún er núna yfir 8 prósent) og atvinnuleysi er undir 5 prósent (atvinnuleysi mælist nú 3,7 prósent). Ef hörð lending er útgangspunkturinn í Bandaríkjunum þá er slík sviðsmynd enn líklegri í Evrópu vegna orkukreppunnar og Seðlabanki Evrópu er að sama skapi mun lengra á eftir í viðbrögðum sínum en kollegar þeirra í Bandaríkjunum.

Er kreppan hafin? Ekki enn, en hagvöxtur mældist neikvæður í Bandaríkjunum á fyrri hluta ársins. Allir hagvísar þróaðra hagkerfa benda til þess að efnahagsumsvif muni snarhemla. Vaxtahækkanir munu aðeins ýkja þróunina. Hörð lending í árslok ætti að vera útgangspunkturinn, sem sakir standa.

Seðlabankar, óháð því með hvaða hætti þeir tala út á við, munu finna fyrir miklum þrýstingi að draga úr peningalegu aðhaldi þegar hörð lending hagkerfisins blasir við og hrun á fjármálamörkuðum hefur átt sér stað

Á meðan margir greinendur eru sammála um að komandi kreppa verði stutt og ekki of djúp hef ég varað við slíkum væntingum og bent á hættuna á langvarandi verðbólguskuldakreppu. Sá titringur sem við höfum séð á fjármálamörkuðum, meðal annars á bæði skuldabréfa- og lánamörkuðum, hefur stutt þá trú mína að aðgerðir seðlabanka heimsins gegn verðbólgu munu orsaka hrun á bæði fjármálamörkuðum og heimshagkerfinu í heild.

Ég hef líka haldið því fram lengi að seðlabankar, óháð því með hvaða hætti þeir tala út á við, munu finna fyrir miklum þrýstingi að draga úr peningalegu aðhaldi þegar hörð lending hagkerfisins blasir við og hrun á fjármálamörkuðum hefur átt sér stað. Englandsbanki hefur sýnt fyrstu merki þess að leggja árar í bát. Eftir að ríkisstjórn Bretlands kynnti ábyrgðarlausa fjármálastefnu sína fyrir skömmu brugðust fjármálamarkaðir illa við og Englandsbanki neyddist til að tilkynna nýja umferð af magnbundinni íhlutun (QE) sem fólst því að kaupa upp bresk ríkisskuldabréf til að ná niður ávöxtunarkröfunni sem hafði snarhækkað.

Peningastefna tekur sífellt meira mið af magnbundinni íhlutun. Á fyrsta ársfjórðungi 2019 þá hætti Seðlabanki Bandaríkjanna magnbundinni íhlutun og hóf að herða tökin á ný – í orði. Í stað þess var íhlutun gerð bakdyramegin með ýmsum ráðum og vextir lækkaðir. Áður höfðu skilaboðin snúið að komandi vaxtahækkunum og aðhaldssamri stefnu. En fyrstu merki erfiðleika á fjármálamörkuðum og hægari hagvexti höfðu áhrif til mildari peningastefnu. Seðlabankamenn munu halda áfram að tala á hörðum nótum en ólíklegt er að þeir muni standa við stóru orðin og ná verðbólgu aftur nærri markmiði í heimi hárrar skuldastöðu þar sem hætta á efnahags- og fjármálahruni er mikil.

Verðlagning hlutabréfa í Bandaríkjunum og á heimsvísu hefur ekki enn verðlagt stutta harða lendingu. Hlutabréf munu falla um 30 prósent í mjúkri lendingu og meira en 40 prósent mitt í þeirri verðbólguskuldakreppu sem ég hef spáð fyrir um.

Að auki er líklegt að Verðbólguskuldakreppan mikla muni bera einkenni óstöðugleika og viðvarandi, hægfara, neikvæðra framboðsskella. Til viðbótar er lýðfræðileg þróun margra mikilvægra hagkerfa neikvæð þar sem þjóðir eru að eldast. Takmarkanir á landamærum gagnvart innflytjendum munu gera það vandamál enn verra. Aðskilnaður Bandaríkjanna og Kína, hrun milliríkjaviðskipta og -samskipta, ný afbrigði COVID-19, nýjar farsóttir á borð við apabólu, afleiðingar hnattrænnar hlýnunar, tölvuárásir á þjóðríki auk fjármálastefna sem hafa áhrif til hækkandi launa. Allt þetta leggst á sömu árina.

Hvernig eigum við þá að stilla upp eignasöfnum við þessar aðstæður? Ég hef áður bent á að neikvæð fylgni milli verðs hluta- og skuldabréfa muni ekki halda í umhverfi hærri verðbólgu. Þetta hefur þegar orðin raunin. Hlutabréf í Bandaríkjunum lækkuðu um 20 prósent á tímabilinu janúar til júní á þessu ári, á meðan ávöxtunarkrafa langra skuldabréfa hækkaði um 1,5 til 3,5 prósent á sama tímabili. Þetta orsakaði mikið tap í flestum eignasöfnum, enda var jákvæði fylgni.

Áhættusamir skuldamarkaðir og eignatryggðir markaðir hafa þegar lokað. Skuldug fyrirtæki, skuggabankar, heimili, ríkissjóðir og þjóðríki eru að lenda í skuldavanda. Kreppan er hafin.

Þar að auki lækkaði ávöxtunarkrafa skuldabréfa í júlí og fram í miðjan ágúst á sama tíma og hlutabréf tóku við sér. Frá miðjum ágúst hafa hlutabréf lækkað og ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækkað. Samfara því að verðbólga eykst og vextir hækka hefur björninn hreiðrað um sig á öllum mörkuðum.

Verðlagning hlutabréfa í Bandaríkjunum og á heimsvísu hefur ekki enn verðlagt stutta harða lendingu. Hlutabréf munu falla um 30 prósent í mjúkri lendingu og meira en 40 prósent mitt í þeirri verðbólguskuldakreppu sem ég hef spáð um fyrir heimshagkerfið. Merki um erfiðleika á skuldabréfamörkuðum eru þegar augljós. Ávöxtunarkrafa á skuldabréf þjóðríkja og löng skuldabréf hækkar hratt. Áhættusamir skuldamarkaðir og eignatryggðir markaðir hafa þegar lokað. Skuldug fyrirtæki, skuggabankar, heimili, ríkissjóðir og þjóðríki eru að lenda í skuldavanda. Kreppan er hafin.


Nouriel Roubini er prófessor emeritus í hagfræði við Stern-viðskiptaskólann hjá New York-háskóla og aðalhagfræðingur Atlas Capital, @Project Syndicate, 2022. Þá er hann höfundur bókarinnar MegaThreats: Ten Dangerous Trends That Imperil Our Future, and How to Survive Them, sem kemur út innan skamms.


Tengdar fréttir

Flýja hlutabréf vegna óvissu og lækkana á erlendum mörkuðum

Þótt efnahagshorfurnar hér á landi séu um margt betri en í okkar helstu viðskiptalöndum þá hafa verðlækkanir á íslenska hlutabréfamarkaðinum í mörgum tilfellum verið meiri en þekkist erlendis og er Úrvalsvísitalan niður um 15 prósent frá því um miðjan september. Áframhaldandi sala erlendra sjóða, aukin skortsala og hrina veðkalla gagnvart skuldsettum fjárfestum skýrir meðal annars þróunina að undanförnu, að sögn viðmælenda Innherja.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.