Skoðun

Spila­kassa­rekstur Rauða krossins

Alma Hafsteinsdóttir skrifar

Næstkomandi föstudag stendur til að fara í mannvinasöfnun á vegum Rauða krossins. Þjóðþekkt tónlistarfólk, skemmtikraftar og áhrifafólk í samfélaginu munu leggja málefninu lið.

Ástæða þess að ég skrifa þessa grein er að mögulega veit fólk ekki um önnur „fjáröflunarverkefni” Rauða krossins, rekstur spilakassa. Rauði krossinn á Íslandi á og rekur eina hörðustu og skaðlegustu fjáröflunarleið sem þekkist. Þar standa spilafíklar að mestu vaktina og ástvinir þeirra. Í febrúar 2021 fóru Samtök áhugafólks um spilafíkn af stað með átakið lokum.is. Þar deildu spilafíklar og ástvinir þeirra reynslu sinni af spilakössum. Átakinu var ætlað að opna umræðuna og upplýsa almenning um skaðsemi spilakassa.

Í daglegu lífi verður meirihluti almennings ekki var við spilakassarekstur Rauða krossins, fólk er almennt ekki að spila í spilakössum. Spilafíklar eru ekki að leggja málefnum Rauða krossins lið heldur að spila í spilakössum vegna þess að þeir eru haldnir spilafíkn, spilafíkn sem þeir ráða ekki við og geta vegna fíknar ekki hætt að spila.

Spilafíklar á Íslandi sem standa undir verulegum hluta tekna Rauða krossins af spilakössum eru á bilinu 1000 - 2000 einstaklingar. Um er að ræða mjög jaðarsettan og fámennan hóp. Einstaklingar sem geta ekki með nokkru móti borið hönd fyrir höfuð sér gegn jafn öflugum samtökum sem Rauði krossinn er.

Opinberlega ræða forsvarsmenn Rauða krossins aldrei vanda spilafíkla, þann ómælda harmleik sem spilafíkn veldur í lífi þeirra og allra sem standa þeim næst. Þvert á móti gera þeir lítið úr afleiðingum spilakassa, tala um að þetta sé nú ekki svo skaðlegt og jafnvel reyna að draga úr trúverðugleika spilafíkla og þeirra sem vekja máls á skaðsemi spilakassa. Vísa þeir ávallt í hversu mikilvægar þessar tekjur eru.

En spilakassareksturinn er ekki nóg. Rauði krossinn hefur sótt það stíft að fá leyfi stjórnvalda til að starfrækja innlenda netspilun sem í daglegu tali nefnist fjárhættuspil á netinu, allt í nafni mannúðar og góðgerðarmála. Vert er að taka fram að samkvæmt lögum eru fjárhættuspil bönnuð á Íslandi.

Ljóst er að þau grunngildi sem Rauði krossinn birtir á heimasíðu sinni eiga ekki við þegar kemur að spilafíkn. Ef grunngildin væru í hávegum höfð væri Rauði krossinn ekki að reka spilakassa.

Það er skylda Rauða krossins á Íslandi að upplýsa alla þá sem leggja þeim lið, í hvaða verkefni sem er, um spilakassarekstur sinn. Annað er ósiðlegt.

Í betra og mannúðlegra samfélagi væri Rauði krossinn á Íslandi að leita til almennings um frjáls framlög, framlög t.d. í formi mannvina af því að stjórn Rauða krossins ákvað að hætta rekstri spilakassa.

Höfundur er formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×