Viðskipti erlent

Svindl, skandalar og gagnaleki gætu fellt Credit Suisse

Bjarki Sigurðsson skrifar
Svissneski bankinn Credit Suisse er í afar miklum vandræðum samkvæmt erlendum fjölmiðlum.
Svissneski bankinn Credit Suisse er í afar miklum vandræðum samkvæmt erlendum fjölmiðlum. Getty/Xavi Lopez

Virði hlutabréfa í svissneska bankanum Credit Suisse hefur aldrei verið lægra og talið er að allt að fimm þúsund manns verði sagt upp í mánuðinum. Fjárhagsstaða bankans er sögð vera afar slæm. 

Virði hlutabréfa Credit Suisse hefur fallið um rúm sextíu prósent það sem af er árs og um tæp tíu prósent bara í dag. Fallið kemur í kjölfar umfjöllunar helstu fjölmiðla heims um slaka fjárhagsstöðu bankans en Credit Suisse hefur lent í þónokkrum skandölum upp á síðkastið. 

Samkvæmt The Guardian mun bankinn þurfa að segja upp allt að fimm þúsund starfsmönnum, selja eignir og biðja fjárfesta um pening til þess að koma sér úr fjárhagslegum erfiðleikum sínum. Árið 2020 skilaði bankinn fjögur hundruð milljarða króna hagnaði en í fyrra var afkoman tap upp á tæpa 250 milljarða króna.

Í fyrra tapaði bankinn gífurlegum upphæðum vegna fjárfestingar í fyrirtækinu Greensill og í vogunarsjóðnum Archegos. Stofnandi Archegos hefur verið ákærður fyrir fjárkúgun og svik eftir að sjóðurinn varð gjaldþrota. Þá þurfti bankinn að greiða tæpa sextíu milljarða króna sekt vegna svika í kringum viðskipti með túnfisk í Mósambík. 

Fyrr á árinu var einnig upplýsingum um viðskiptavini bankans lekið til fjölmiðla en margir þeirra voru með óhreint mjöl í pokahorninu. Meðal annars mátti finna menn sem höfðu verið dæmdir fyrir að þiggja mútur og sænskan mann sem hafði verið dæmdur fyrir mansal.

Ulrich Körner, forstjóri Credit Suisse, sendi um helgina minnisblað á starfsmenn bankans þar sem hann sagði starfsfólki að trúa ekki því sem kæmi fram um fyrirtækið í fjölmiðlum. Hann vill meina að margt af því sem þar kæmi fram væri alls ekki rétt og að fjárhagsstaða bankans væri ekki í samræmi við verð hlutabréfa.


Tengdar fréttir

Um­fangs­mikill gagna­leki frá Credit Suis­se

Upplýsingar um viðskiptavini svissneska bankans Credit Suisse hafa litið dagsins ljós í umfangsmiklum gagnaleka. Um er að ræða um þrjátíu þúsund viðskiptavini sem eiga ríflega eitt hundrað milljarða franka í bankanum.

Maðurinn sem tapaði tuttugu milljörðum dollara á einu bretti bíður átekta

Bill Hwang, maðurinn sem stýrði hinum lítt þekkta vogunarsjóði Archegos Capital, sem fór á hausinn með hvelli í vor, bíður nú átekta og leitar svara við spurningunni um hvað fór úrskeiðis. Yfirvöld rannsaka málið auk banka sem töpuðu á viðskiptunum. Hwang virðist þó vera hinn rólegasti, ef marka má umfjöllun Bloomberg.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.