Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09 prósent milli mánaða og mælist tólf mánaða verðbólga nú 9,3 prósentustig, samanborið við 9,7 prósentustig í ágúst. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum á vef Hagstofunnar.
Mest fór verðbólgan upp í 9,9 prósentustig í júlí en greiningardeildir bankanna spá því að verðbólga haldi áfram að minnka hægt það sem eftir lifi árs.
Landsbankinn telur líklegt að Seðlabankinn haldi áfram að hækka stýrivexti þar sem verðbólga er enn langt yfir verðbólgumarkmiðið. Íslandsbanki segir útlit fyrir að stýrivextir nái að hámarki sex prósentum á þessu ári.
Verð á flugfargjöldum lækkar mikið
Verð á fötum og skóm hækkaði um 4,6 prósent milli mánaða og eru áhrifin á verðbólguna í september 0,15 prósent til hækkunar.
Verð á heimilistækjum til heimilisnota hækkaði einnig um 5,4 prósent og eru áhrifin á verðbólguna 0,10 prósent.
Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði aftur á móti um 17,9 prósent milli mánaða og lækkar verðbólguna þar með um 0,42 prósentustig.