Viðskipti innlent

Í­búða­verð lækkar á milli mánaða í fyrsta sinn í þrjú ár

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fasteignamarkaðurinn virðist vera farinn að kólna.
Fasteignamarkaðurinn virðist vera farinn að kólna. Vísir/Vilhelm

Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,4 prósent á milli mánaða í ágúst. Er það í fyrsta sinn síðan í nóvember 2019 sem vísitalan lækkar.  Hagfræðideild Landsbankans telur að þetta sé skýrt merki um að fasteignamarkaðurinn sé farinn að kólna.

Gríðarlegar hækkanir á fasteignaverði hafa verið undanfarin misseri. Til að mynda mælist vegin árshækkun íbúðarverðs 23 prósent. Þessi tala er þó á niðurleið en í júlí mældist þessi hækkum 25,4 prósent.

Vísitala húsnæðisverðs byggir á þriggja mánaða hlaupandi meðaltali mánaðarlegra gagna um þinglýsta kaupsamninga um íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu.

„Samkvæmt nýbirtum tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) lækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 0,4% milli júlí og ágúst. Þetta er í fyrsta sinn síðan í nóvember 2019 sem íbúðaverð lækkar milli mánaða og mesta lækkun sem hefur mælst síðan í febrúar 2019 þegar vísitalan lækkaði um 1% milli mánaða,“ segir á vef Landsbankans.

Staðfesting þess að markaðurinn sé farinn að kólna

Þar er jafn framt bent á það að á fyrri árshelmingi ársins hafi mánaðarlegar hækkanir mælst á bilinu 2,2 til þrjú prósent. Í júli fór að hægja á þessari þróun þegar mánaðarleg hækkun mældist 1,1 prósent. Nú, í fyrsta sinn síðan í nóvember 2019, lækkar vísitala húsnæðisverðs á milli mánaða.

„Mælingin nú er enn frekari staðfesting á því að markaður sé farinn að kólna og mögulega hraðar en spár gera ráð fyrir,“ segir á vef Landsbankans. 

Ákveðinn fyrirvari er þó settur á gagnsemi þess að draga of miklar ályktanir út frá þessari lækkun.

„Það sama gildir um þróun á íbúðaverði almennt, að varasamt er að draga of miklar ályktanir út frá einni mælingu. Þó íbúðaverð lækki lítillega milli mánaða nú er ekki endilega víst að sú þróun haldi áfram. Hagfræðideild hefur verið þeirra skoðunar að rólegri tíð sé framundan á fasteignamarkaði með hóflegum hækkunum milli mánaða, mun minni en sáust á fyrri mánuðum þessa árs, og er sú skoðun óbreytt þrátt fyrir lítilsháttar lækkun milli mánaða nú.“

Hagfræðideildin hefur einnig birt nýja og uppfærða verðbólguspá. Gerir hún nú ráð fyrir því að verðbólga á fjórða ársfjórðungi verði 8,8 prósent, en áður var spáð 9 prósent verðbólgu.


Tengdar fréttir

Að­gerðir Seðla­bankans farnar að hafa á­hrif

Hækkun vísitölu íbúðaverðs í fjölbýli hækkaði um 0,5 prósent milli mánaða en í sérbýli um 3,7 prósent. Hagfræðideild Landsbankans telur þetta vera merki um að aðgerðir Seðlabankans til þess að bæta fasteignamarkaðinn séu að virka.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×