Viðskipti innlent

Hörður hættir í Macland

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Hörður Ágústsson hefur lengi verið kallaður Höddi í Macland eða Höddi Mac.
Hörður Ágústsson hefur lengi verið kallaður Höddi í Macland eða Höddi Mac. STVF

Hörður Ágústsson, einn stofnenda fyrirtækisins Macland, hefur ákveðið að hætta hjá fyrirtækinu. Hann segir viðskilnaðinn ljúfsáran en tímabært hafi verið að breyta til. Næstu mánuði mun hann vinna að verkefni með rafskútu- og deilibílaleigunni Hopp.

„Það var kominn tími til þess að skipta um vettvang. Maður er búinn að vera lengi á sama staðnum og mig langaði að prófa mig í einhverju öðru. Ég var orðinn alveg ágætur í því að vinna í Apple-heiminum en maður gleymir því líka að þegar maður er búinn að vera í tólf ár í einhverju einu þá þarf maður kannski aðeins að ögra sér meira en það,“ segir Hörður í samtali við fréttastofu.

Úr stofunni heima 

Það eru komin 12 ár síðan fyrirtækið var stofnað og hefur það stækkað töluvert. Fyrsta búðin var opnuð árið 2010 í gamla Sirkushúsinu á Klapparstíg og var meðal annars á Laugavegi 17 í átta ár. Nú rekur Macland verslun og Apple-verkstæði í Kringlunni.

„Það er gaman að horfa til baka. Það er svona það sem maður er búinn að vera að gera síðustu vikuna, bara að horfa til baka og sjá hvað þetta breyttist frá því að vera í stofunni heima hjá manni í eitthvað allt annað. Ekki bjóst maður við því að það myndi gerast,“ segir Hörður og hlær.

„Ég er orðinn svo gamall“

Hörður segir of snemmt að gefa nánari upplýsingar um verkefnið sem hann kemur til að vinna að hjá Hopp en leggur áherslu á að verkefnið skipti hann miklu máli. Hann gerir ráð fyrir því að það verði kynnt fljótlega. 

Hörður segir Apple áhugann þó enn vera til staðar: „Það verður erfitt að breyta úr því úr þessu. Það er of seint að skipta, ég er orðinn svo gamall,“ segir hann og hlær.

Hörður greindi frá tíðindunum á Twitter-síðu sinni og hefur fengið mikil viðbrögð við tístinu: RIP Höddi Mac. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×