Handbolti

Hand­kastið um Stjörnuna: „Þeirra bestu leik­menn eru ekki að stíga upp og þá endar þetta svona“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tandri Már Konráðsson, leikmaður Stjörnunnar, var meðal þess sem rætt var um í síðasta þætti Handkastsins.
Tandri Már Konráðsson, leikmaður Stjörnunnar, var meðal þess sem rætt var um í síðasta þætti Handkastsins. Vísir/Daníel Þór

„Á meðan tveir af bestu leikmönnum deildarinnar, eins og er endalaust verið að tala um, eru með fretið upp á bak - Hergeir [Grímsson] og Tandri Már [Konráðsson] - þá fer þetta svona hjá Stjörnunni,“ sagði Styrmir „Snickers“ Sigurðsson í síðast þætti af Handkastinu þar sem farið var yfir óvæntan sigur Gróttu á Stjörnunni í Olís deild karla í handbolta.

Grótta kom öllum á óvartog lagði Stjörnuna í síðustu umferð Olís deildar karla í handbolta. Farið var yfir leikinn og stöðuna á Stjörnuliðinu í Handkastinu.

„Þeirra bestu leikmenn eru ekki að stíga upp og þá endar þetta svona,“ bætti Styrmir við áður en Arnar Daði Arnarsson fór yfir tölfræði Tandra í fyrstu leikjum tímabilsins.

„Þarna ertu að tala um Tandra Má Konráðsson sem var með tvö mörk úr fimm skotum í þessum leik og þrjú mörk í 11 skotum á móti Fram í síðustu umferð. Á móti FH var hann með núll mörk úr fjórum skotum.“

„Maður veit auðvitað ekki alla söguna. Það gæti vel verið að hann sé að glíma við einhver meiðsli eða eitthvað slíkt. En að Tandri Már Konráðsson sé með 1,7 mark að meðaltali er eiginlega bara skandall,“ skaut Benedikt „Bounty“ Grétarsson. 

„Og gegn þessum liðum, með fullri virðingu. Þetta er ekki Valur eða ÍBV.“

„Svo eru með Hergeir Grímsson, bestu félagaskipti Íslandssögunnar – svona í haust. Tvö mörk, flatur og áhugalítill. Hvar er sá Hergeir sem við sáum í Selfossi? Ég skil ekki alveg hvað er að gerast þarna. Ef einhver maður gæti kveikt neista og hug í mönnum þá er það Patrekur Jóhannesson,“ bætti Benedikt við að endingu.

Umræðuna, sem og þáttinn í heild sinni, má hlusta á hér að neðan. Umræðan um Stjörnuna, Hergeir og Tandra Má byrjar á 38.05 mínútu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×